Hafa fengið gögn um 13 fjölskyldur

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Ef allt gengur að óskum munu þrettán fjölskyldur frá Sýrlandi sem dvelja í flóttamannabúðum í Sýrlandi koma hingað til lands fyrir jól. Gögn hafa borist frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til velferðarráðuneytisins um fjölskyldurnar. Sú fjölmennasta telur níu manneskjur.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, fundar með flóttamannaefnd í dag. Þar verður farið yfir gögnin en þar er farið nokkuð ítarlega yfir málefni allra flóttamannanna.

Í framhaldinu verður rætt við sveitarfélögin þrjú, Akureyri, Hafnarfjörð og Kópavog, en þangað fara fyrstu fjölskyldurnar. Þá þarf að kanna bakgrunn fólksins í samvinnu við lögreglu og Útlendingastofnun.

„Okkur líst mjög vel á þessi gögn sem voru að koma og það verður mjög spennandi að heyra hvað flóttamannanefndin og sveitarfélögin munu segja. Þetta eru þrettán fjölskyldur, allt frá því að vera tveir einstaklingar upp í níu manna stórfjölskyldu,“ segir Eygló í samtali við mbl.is.

„Þetta þýðir einfaldlega það að í næstu viku getum við sent svör til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna varðandi móttöku þessara einstaklinga. Í framhaldinu getur allt farið að á fullt varðandi undirbúning og móttöku þeirra hjá sveitarfélögunum.“

Getur verið að þið þurfið að hafna einhverjum?

„Það mun koma í ljós á fundi flóttamannanefndar. Hugsanlega koma allir þessir einstaklingar en ég bíð eftir að fá niðurstöður þeirra varðandi yfirferðina,“ segir Eygló. Vonast er til að fólkið verði komið hingað fyrir jól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert