Horfa verður til markmiða með RÚV

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, er ekki hlynntur því að selja Ríkisútvarpið (RÚV), enda væri slík sala afar flókin í framkvæmd. Brýnt sé nú að ræða núverandi rekstrarfyrirkomulag Ríkisútvarpsins.

Kynntar voru í dag niðurstöður nefndar um starfsemi og rekstur RÚV frá árinu 2007 og kemur þar meðal annars fram að rekstur RÚV ohf hefur ekki verið sjálfbær frá stofnun félagsins. Nálgast heildarskuldir Ríkisútvarpsins nú sjö milljarða króna og gera áætlanir RÚV ráð fyrir hærra útvarpsgjaldi en fjárlagafrumvarp mælir fyrir.

Illugi segist ósammála þeim hugmyndum að hækka útvarpsgjaldið.

„Ég hef ekki stutt þær hugmyndir enda tel ég, í ljósi þessarar stöðu og þeirra verkefna sem unnin hafa verið innan Ríkisútvarpsins, ekki ástæðu til þess að hækka útvarpsgjaldið frá því sem nú er heldur að horfa til þess að á næsta ári verði það hið sama og á þessu ári,“ segir Illugi í samtali við mbl.is en áætlanir RÚV gera ráð fyrir að útvarpsgjaldið verði 17.800 kr. og renni óskipt til þeirra og hækki með verðlagi.

Skýrslan veitir grunn að umræðu

Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem Ríkisútvarpið er í segir Illugi nú brýnt að ræða af fullri alvöru hvort rekstrarfyrirkomulag félagsins, þ.e. ohf.-væðing Ríkisútvarpsins sem átti sér stað árið 2007, eigi við. 

„Menn verða auðvitað fyrst og fremst að horfa til þess hver markmiðin eru með rekstri Ríkisútvarpsins. Það er ekki formið sem ræður för heldur hversu vel menn ná þessu markmiði. Ef við teljum þetta fyrirkomulag ekki hafa reynst nægjanlega vel, þá eigum við ekki að vera feimin við að skoða það og um leið hvort til sé einhver önnur nálgun sem hentar betur,“ segir Illugi og bætir við að hann sé sjálfur ekki hrifinn ohf.-fyrirkomulaginu.

Þá telur Illugi nýútkomna skýrslu afar mikilvæga þegar kemur að því að ræða þann mikla rekstrarvanda sem Ríkisútvarpið glímir við. „Það sem mér finnst einkum vera gott við að fá þessa skýrslu, þó vissulega verði á henni mismunandi skoðanir, er að hún veitir betri grunn undir alla umræðu.“

Stjórn RÚV unnið þarft verk

Spurður hvort hann telji að núverandi stjórn Ríkisútvarpsins hafi unnið gott starf og um leið reynt að sporna gegn hallarekstri félagsins kveður Illugi já við. 

„Þeir hafa reynt að draga úr umfanginu með því til að myna að leigja út hluta af húsnæði sínu, náð að gera verðmæti úr byggingarréttinum á lóðinni og þeir hafa, líkt og fram kemur í skýrslunni, dregið úr rekstrarkostnaði. En auðvitað eru mörg erfið mál líka eins og samningurinn við Vodafone um dreifikerfið - það er mikill og þungur baggi á stofnuninni.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert