„Ég hef verið kallaður ýmislegt en ekki þetta,“ sagði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, á setningarathöfn ráðstefnunnar Northern Future Forum 2015 sem hófst í morgun á Grand Hótel í Reykjavík. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók fyrstur til máls og ræddi um ráðstefnuna sem haldin hefur verið árlega undanfarin ár en Cameron átti frumkvæðið að því að koma þessum vettvangi á laggirnar. Kallaði Sigmundur hann fyrir vikið guðföður ráðstefnunnar og hafði Cameron greinilega gaman að því.
Ráðstefnan fer fram í dag með þátttöku samtals átta forsætisráðherra. Auk þeirra Sigmundar og Camerons taka þátt í ráðstefnunni Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, Juha Sipilä, forsærisráðherra Finnlands, Laimdota Straujuma, forsætisráðherra Lettlands, Taavi Rõivas, forsætisráðherra Eistlands, og Algirdas Butkevičius, forsætisráðherra Litháens.
Northern Future Forum var fyrst haldin árið 2011 og hefur síðan farið fram árlega sem fyrr segir. Cameron fagnaði því í morgun að þessi vettvangur skyldi hafa verið settur á laggirnar og sagðist sérstaklega ánægður með hversu óformlegar og hreinskilnar samræður forsætisráðherranna væru. Bæði innbyrðis og við þann fjölda sérfræðinga sem einnig taka þátt í ráðstefnunni. Þannig væri þátttakendur til að mynda ekki með neina punkta eða fyrirfram ritaðar ræður.
Breski forsætisráðherrann sagðist ánægður með þema Northern Future Forum að þessu sinni sem er skapandi greinar og nýsköpun í opinberum rekstri. Skapandi greinar skiptu miklu máli fyrir efnahagslífið og stæðu til að mynda að baki 5% starfa í Bretlandi. Þar með væri ekki öll sagan sögð enda skiptu skapandi greinar miklu máli hnattrænt og gætu verið eitt af því sem skiptu sköpum varðandi það að laða að fjárfestingar af hálfu fyrirtækja og einstaklinga. Ekki mætti heldur gleyma mikilvægi skapandi greina fyrir menningarlíf ríkja.
Lagði hann ennfremur áherslu á að stjórnmálamennirnir sem væru á ráðstefnunni fyrst og fremst til þess að hlusta og auka þekkingu sína frekar en að predika eigin sjónarmið.