„Hvað varð um guðföðurinn?“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, við upphaf blaðamannafundar sem fram fór í dag í lok ráðstefnunnar Northern Future Forum 2015 og vísaði þar til Davids Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sem lét bíða aðeins eftir sér eftir að hinir átta forsætisráðherranir sem tóku þátt í ráðstefnunni voru sestir í sæti sín á sviðinu.
Vísaði Solberg þar til ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra við upphaf ráðstefnunnar í morgun þar sem hann sagði að kalla mætti Cameron guðföður ráðstefnunnar í ljósi þess að fyrsta Northern Future Forum ráðstefnan hefði verið haldin 2011 að frumkvæði Camerons. Cameron hafði greinilega gaman að ummælum Sigmundar. Eins féllu ummæli Solberg í góðan jarðveg. Cameron mætti stuttu síðar á sviðið léttur í spori og settist í sæti sitt við hlið Sigmundar
Sigmundur hóf blaðamannafundinn á að lýsa upplifun sinni af umræðufundum sem fram fóru á ráðstefnunni í morgun. Meðal annars hafi þeim verið boðið upp á að setja saman endur úr legókubbum og komist að því að það mætti gera á fjölda vegu. Markmiðið með því hefði verið að sýna fram á að fara mætti ýmsar leiðir til þess að leysa sama vandamálið.
Forsætisráðherrar hinna Norðurlandanna, Eystrasaltslandanna og fulltrúar þeirra forsætisráðherra sem fara þurftu af landi brott fyrir blaðamannafundinn lýstu síðan upplifun sinni af ráðstefnunni og hvað þeim þótti standa upp úr á henni. Voru þeir almennt mjög ánægðir með hana og lýsti Solberg því yfir að lokinni sinni umfjöllun að Northern Future Forum færi fram í Noregi á næsta ári.