Þær upplýsingar sem lögregla hefur aflað í tengslum við rán í skartgripaversluninni Gullsmiðjunni í Hafnarfirði fyrir viku hafa ekki leitt til handtöku hins mannsins sem grunaður er um ránið eða til þess að ránsfengurinn finnist.
Að sögn Bjarna Ólafs Magnússonar, lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er rannsókn málsins í fullum gangi. Unnið er úr gögnum, framburðum vitna og hins grunaða sem sætir gæsluvarðhaldi. Haldið verður áfram að yfirheyra hinn grunaða í málinu sem og vitni.
Tveir grímuklæddir menn ógnuðu starfsmanni verslunarinnar með bareflum og hnífum síðdegis á fimmtudag í síðustu viku. Flúðu þeir af vettvangi á hvítum jepplingi sem reyndist vera stolinn og á röngum skráningarmerkjum.
Bílnum var ekið á ofsahraða, meðal annars á móti umferð og utan í annan bíl. Fannst jepplingurinn við afleggjarann til Grindavíkur seinna um daginn.
Frétt mbl.is: Leita enn að ræningja og þýfi