Rekstur RÚV ohf hefur ekki verið sjálfbær frá stofnun félagsins árið 2007 og nálgast heildarskuldirnar nú sjö milljarða króna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu nefndar um starfsemi og rekstur RÚV frá 2007.
Niðurstöðurnar voru kynntar á blaðamannafundi í Þjóðminjasafninu sem hófst klukkan 13.
Rætt var við fjölda aðila við gerð skýrslunnar og má þar nefna Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóra, Önnu Bjarneyju Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra rekstrar-, fjármála- og tæknisviðs RÚV, Pál Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóra, og Sævar Frey Þráinsson, forstjóra 365 Miðla.
Nefndina skipuðu Eyþór Laxdal Arnalds, framkvæmdastjóri, sem var formaður nefndarinnar, Guðrún Ögmundsdóttir sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneyti og Svanbjörn Thoroddsen hjá KPMG.
Skuldir jukust um eina og hálfa milljón á dag
Vitnað er þeirrar greiningar endurskoðunarfyrirtækisins PWC í fyrrasumar, að „félagið [sé] yfirskuldsett og hefur ekki burði til þess að standa við skuldbindingar sínar“.
Á árunum 2012-2014 hafi vaxtaberandi skuldir RÚV aukist hlutfallslega mest, eða um eina og hálfa milljón á dag að jafnaði.
Hafa skuldir aukist úr 4.979 milljónum 31. ágúst 2007 í 6.627 milljónir 31. ágúst sl. Tölurnar eru á verðlagi hvers árs.
Hátt hlutfall skulda RÚV er m.a. vegna yfirtöku á skuldabréfi við LSR – Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins – sem stóð í lok síðasta rekstrarárs í 3,2 milljörðum.
Skuldabréfið er til komið áður en RÚV var breytt í ohf. og ber því ríkisábyrgð. Það ber fasta 5% vexti sem er sagt óhagstætt. Til samanburðar séu markaðsvextir skuldabréfa Íbúðalánasjóðs, sem líka bera ríkisábyrgð, nú um 2,6%. Fyrir vikið sé RÚV að greiða um 77 milljónir króna í vexti umfram núverandi markaðsvexti.
Sala á Efstaleiti skili 4,2 milljörðum
Heildarskuldir RÚV hinn 31. ágúst síðastliðinn voru sem fyrr segir um 6,6 milljarðar og voru þar af vaxtaberandi skuldir um 5 milljarðar. „Að auki er innbyggð verðtryggð vaxtaberandi skuld í Vodafone-samningnum 570 milljónir króna. Þannig eru vaxtaberandi skuldir alls um 5,5 milljarðar króna,“ segir í skýrslunni en vikið er að þessum samningi hér fyrir neðan.
Áformað er að selja byggingarrétt á lóð RÚV og er gert ráð fyrir að með því lækki skuldir um 1,5 milljarð króna. Húsnæði RÚV í Efstaleiti er sagt bæði stórt og óhagkvæmt. Í því sé mikil fjárbinding. Það sé 16.400 fermetrar en til samanburðar hafi RÚV skilgreint húsnæðisþörf sína um 5.300 til 8.800 fermetra. Áætlað er að sala á Efstaleitinu gæti skilað 4,2 milljörðum.
Taprekstur á fjórum árum af átta
Skýrsluhöfundar skrifa að RÚV hafi ekki tekist að ná kostnaði niður í samræmi við tekjur. Taprekstur hafi verið 4 af þeim 8 árum sem liðin eru frá stofnun RÚV ohf.
Birtar eru sundurliðaðar tölur fyrir rekstrarárið 2013-2014.
Heildartekjur RÚV voru þá 5.400 milljónir króna en rektrargjöld með fjármagnskostnaði muni hærri, eða 5.739 milljónir. Munar hér 339 milljónum.
Langstærstur hluti kostnaðarins fellur undir dagskrár- og framleiðslukostnað, eða 68%.
Fjórir liðir eru sagðir hver og einn að baki 6% rekstrarkostnaðarins, eða alls 24% af kostnaðinum. Þeir eru fjármagnskostnaður, afskriftir, yfirstjórn og dreifikerfi. Um 5% rekstrarkostnaðarins fóru í húsnæði og annan rekstur og 3% fór til auglýsingadeildar.
50-60% rekstrarkostnaðar fór í innlenda dagskrá
„Um 46% af rekstrarkostnaði RÚV fór í bein útgjöld við fréttir, íþróttir og aðra innlenda dagskrá. Ef sameiginlegur dagskrárkostnaður er talinn með er 50-60% kostnaðar vegna innlendrar dagskrár,“ segir í skýrslunni og eru svo helstu kostnaðarliðir tilgreindir.
Þeir eru fréttir og íþróttir, sem kostuðu 1.198 milljónir, eða 21% kostnaðar, annað innlent sjónvarpsefni, sem kostaði 847 milljónir, eða 15% kostnaðar, og svo annað útvarpsefni, sem kostaði 554 milljónir, eða 10% kostnaðar.
Í kaflanum „nokkur álitamál“ er ítrekað að 60% af heildarútgjöldum RÚV fari í beinan kostnað við innlenda dagskrá. „Er hægt að fá betri nýtingu á fjárveitingar ríkissjóðs?“ spyrja skýrsluhöfundar.
Dýr samningur við Vodafone
Meðal annarra niðurstaðna í skýrslunni er að samningur RÚV við Vodafone hafi reynst RÚV „dýrkeyptur“.
„Samningur var gerður við Vodafone í mars 2013 um dreifingu sjónvarps-og útvarpsefnis að undangengnu útboði. Samningurinn er til 15 ára og núvirt skuldbinding vegna samningsins nemur 4 milljörðum króna. Samningurinn fól í sér mikla fjárbindingu og kostnaðarauka í rekstri RÚV sem reyndist enn hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Krafa um 99,8% dreifingu kerfisins er langt umfram kröfu um dreifingu almannaþjónustumiðla í öðrum dreifbýlum löndum eins og Noregi og Bretlandi. Samningurinn fólst í innleiðingu á starfrænni tækni sem býður ekki upp á gagnvirkni, ekki Internet og hvorki besta né ódýrasta lausn. Áætlað er að a.m.k. 90% landsmanna nái útsendingum sjónvarps í gegnum dreifikerfi annarra en RÚV, sem byggja á Internet tækni. Þeir 4 milljarðar sem kerfið kostar hefðu getað nýst í ljósleiðaravæðingu landsins; flýtt fyrir henni og lagt grunn að dreifikerfi með Internetinu í stað lokaðs og ógagnvirks dreifikerfis,“ segir í skýrslunni og er heimildin fyrir síðastnefnda atriðinu ársskýrslur RÚV, norska útvarpsins, NRK, og breska útvarpsins, BBC.
Bent er á að greiddur kostnaður vegna dreifikerfis nær tvöfaldast frá 2011-12 til 2013-14, fer úr 297 milljónum í 573 milljónir.
Mun hærri kostnaður en hjá 365 miðlum
Í skýrslunni segir að „einfaldur samanburður talna við 365 Miðla [sýni] að rekstrarkostnaður RÚV er mun hærri“.
Borinn er saman kostnaður hjá 365 miðlum vegna reksturs Stöðvar 2, Maraþon, Bíórásarinnar og Bylgjunnar annars vegar og við allan rekstur RÚV, þ.m.t. sjónvarp, Rás 1 og Rás 2 og ruv.is.
„Rekstrarkostnaðurinn er 1,8 ma.kr. lægri hjá 365 Miðlum en hjá RÚV. Við samanburðinn er rétt að hafa í huga þær skyldur sem hvíla á RÚV vegna almannaþjónustuhlutverks stofnunarinnar,“ segir í skýrslunni.
Á það er bent að fjöldi stöðugilda við fréttir, fréttatengt efni og íþróttir sé 54 hjá RÚV en 25 hjá 365 Miðlum. Fjöldi stöðugilda í heild hjá RÚV er 252 og 111 hjá 365 Miðlum.
Leiðrétting kl. 16.15
Áætlað söluverðmæti húsnæðisins í Efstaleiti, 4,2 milljarðar, er fengið úr skýrslu RÚV um samantekt á húsnæðismálum sem lögð var fyrir stjórn i febrúar 2014. Vitnað er til þessa mats í nýju skýrslunni.