Í ljós hafa komið alvarlegar rakaskemmdir í austurhlið húss Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1. Var það í lok ágúst sem skemmdirnar uppgötvuðust og voru þá tekin sýni sem í fundust sveppagró. Er nú unnið að því að meta umfang þessara skemmda.
„Við erum búin að láta opna útvegg á tveimur stöðum og lýsir þetta sér eins á báðum - það er leki í gegnum útvegg,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, í samtali við mbl.is og vísar í máli sínu til austurhliðar húss Orkuveitu Reykjavíkur sem jafnframt er áveðurshlið höfuðstöðvanna.
Aðspurður segir Bjarni sérfræðinga frá verkfræðistofunni Eflu sjá um að kanna skemmdirnar og hafa þeir skoðað 2. og 6. hæð hússins.
„Núna erum við einna helst að einbeita okkur að því að meta ástandið. En auðvitað er annað hvort um að ræða hönnunar- eða framkvæmdagalla, nema hvort tveggja sé,“ segir Bjarni en ástæða lekans á eftir að koma betur í ljós síðar.
Spurður hvernig rakaskemmdirnar komu fyrst í ljós svarar Bjarni: „Við fórum að skoða þetta vegna þess að starfsfólk á 2. hæð [hússins] kvartaði undan loftinu og vildi láta kanna það. Þá fundum við að í því rými lekur ofn og þar mátti í kring finna rakaskemmdir, en þegar við létum skoða þetta betur kom í ljós að það var einnig veggurinn sem lak,“ segir Bjarni.
Var þá gripið til þess að rýma svæðið en um er að ræða suðurhluta 2. hæðar þar sem þjónustuver Orkuveitunnar hafði aðsetur. Hefur starfsfólk þjónustuvers nú verið flutt á annan stað í húsinu.
Í tilkynningu sem Orkuveitan sendi frá sér fyrr í dag kemur meðal annars fram að nokkurn tíma mun taka að undirbúa og framkvæma viðgerðir á húsinu. „Núna þarf að vinna tillögur að úrbótum, hvernig best sé að gera við þetta og síðan framkvæmda- og kostnaðaráætlun. En ekkert af þessu liggur fyrir á þessari stundu,“ segir Bjarni og bætir við að haldinn verði upplýsingafundur fyrir starfsfólk Orkuveitunnar á morgun, föstudag.
Spurður hvort hann telji að fyrirhugaðar viðgerðir verði kostnaðarsamar svarar Bjarni: „Ég held að þetta verði verulegur kostnaður en ég get ekki slegið á hann núna. Ef við þurfum að fara í alla austurhliðina þá verður það náttúrulega veruleg framkvæmd.“
Núverandi höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur voru teknar í notkun árið 2003.
Fyrri frétt mbl.is: