Góð viðbrögð við snemmbúinni jólaverslun

Margar verslanir hafa þegar byrjað að selja jólavarning og skraut.
Margar verslanir hafa þegar byrjað að selja jólavarning og skraut. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það hefur verið meiri umræða en oft áður að þetta sé að færast fram. Það er ekki rétt hvað okkur varðar,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, en jólin komu þar á bæ þann 15. október síðastliðinn. „Við byrjum alltaf á sama tíma og viðbrögðin í ár hafa verið góð og hefðbundin.“

Marga daga tekur að undirbúa verslunina fyrir komu jólanna, en hún er skreytt í bak og fyrir með jólaljósum og öðru jólaskrauti. Landsmenn fara jafnan ekki varhluta af því þegar jólageitin rís á lóð IKEA hvert ár en í þetta skipti brann hún til kaldra kola.

„Það er fullt af fólki sem er sérfræðingar í IKEA og áttar sig á því að jólavaran kemur í mjög takmörkuðu upplagi,“ segir Þórarinn. Því komi margir á fyrsta degi jólasölunnar til að tryggja sér nýjan varning fyrir jólin. „Í ár voru það skemmtilega rauð jólaglös sem kláruðust fyrst,“ segir hann en ómögulegt sé að sjá fyrir hvað verði vinsælast á hverju ári.

Jólakortin lifa enn góðu lífi

Rúmfatalagerinn hefur einnig ýtt jólunum úr vör í sínum verslunum. Það er gert í lok september á hverju ári. „Viðbrögðin hafa verið mjög góð,“ segir Bjarki Beck, markaðsstjóri Rúmfatalagersins. Segir hann það sjást fljótt í aukinni sölu þegar búið sé að auglýsa komu jólavarningsins í búðirnar.

„Seríurnar hafa alltaf verið mjög sterkar en það er gaman að sjá að við vorum með tax free um síðustu helgi og þá voru jólakortin mjög ofarlega,“ segir hann léttur í bragði, en margir hafi haldið að þau væru á útleið með tilkomu samfélagsmiðlanna. „Þau lifa enn mjög góðu lífi.“

Búðirnar eru einnig jólaskreyttar í bak og fyrir en þó hafa jólalögin ekki tekið að óma þar enn. „Nei, við erum ekki komin svo langt en það styttist í það,“ segir Brynjar og óskar landsmönnum gleðilegra jóla. laufey@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert