Þátttakendur í #FreeTheNipple höfðu skýrar hugmyndir um hvað átakið gekk út á og voru meðvitaður um ástæður þátttöku sinnar. Þetta er meðal þess sem kom fram í rannsókn Baldvins Þórs Bergssonar á #FreeTheNipple áttakinu á Twitter.
„Ég hef í langan tíma verið að skoða samfélagsmiðla út frá áhrifum þeirra á pólitík og samfélag. Ég gerði t.d. rannsókn á hvernig íslenskir stjórnmálaflokkar hafa notað samfélagsmiðla, aðallega Facebook fyrir kosningar, en ég var alltaf að bíða eftir svona atburði þar sem maður getur fylgst með í svona beinni útsendingu hvernig boðskapur berst út,“ segir Baldvin í samtali við mbl.is.
Eins og fyrr segir rannsakaði hann #FreeTheNipple átakið á Twitter þegar það braust út 25. mars á þessu ári. Það kvöld og dagana á eftir tóku fjölmargar íslenskar konur þátt í áttakinu með því að bera brjóst sín, en enn fleiri sýndu þeim og átakinu stuðning með því að nota myllumerkið #FreeTheNipple. Var það fljótlega ljóst að um byltingu var að ræða.
Baldvin segir það hafa verið tilviljun að hann hafi verið að fylgjast með á Twitter þegar byltingin hófst miðvikudagskvöldið 25. mars.
„Þegar rannsakendur vilja fylgjast með svona í rauntíma þurfa þeir annaðhvort að hafa upplýsingar um að eitthvað sé að fara í gang eða fyrir tilviljun, vera á réttum stað á réttum tíma. Fljótlega eftir að ég sé að þetta er að verða eitthvað set ég í gang ákveðið mælitæki sem ég nota til að meta dreifingu og ákveðna tölfræði. Ég fylgdist með þessu í nokkra daga,“ segir Baldvin.
Hann segist hafa séð mikla notkun á merkinu fram á föstudagskvöld. „Þá og fram yfir helgina voru klám róbótar byrjaðir að blanda sér í þetta og taka „hashtaggið“ yfir og ég sá greinilega breytingu samkvæmt gögnunum. Á sama tíma virðist notkunin hér heima hafa minnkað. Þetta er fram yfir #FreeTheNipple daginn og svo aðeins lengur. Eftir það virðist notkunin hafa minnkað mjög hratt og greinilega sem er alveg eðlilegt.“
Strax sama kvöld og byltingin hófst sendi Baldvin af stað spurningalista á netinu og svöruðu ríflega þúsund manns. Listanum var dreift á Twitter og Facebook og gat hver sem er svarað. „Ég fékk 1100 svör sem er auðvitað gríðarlega gott og helgast að því að hann er um eitthvað sem vekur mjög mikla athygli akkúrat þegar listinn fer í gang. Á móti kemur er ekki hægt að draga hefðbundnar ályktanir eins og maður myndi gera venjulega með spurningalista sem yfir þúsund svara því hópurinn sem svaraði var tiltölulega einsleitur,“ segir Baldvin. „Ég er í raun aðeins með skoðanir þeirra sem svöruðu.“
Þeir sem svöruðu listanum voru m.a. spurðir hvernig fólk hafði heyrt af þessum atburði. „Þá kom dálítið merkilegt í ljós sem var að flestir heyrðu af honum í gegnum Facebook en ekki Twitter sem skýrist af aldursskiptingu,“ segir Baldvin og bætir við að notendur Twitter séu yfirleitt yngri en notendur Facebook. Einnig var fólk spurt hvernig það tók þátt í þessum atburði og hvers vegna.
„Ég var að reyna að átta mig á því hvort að fólk hafi haft mjög skýrar hugmyndir um hvað það var að gera og af hverju, eða hvort þetta hafi verið einhver múgæsingur eða hópþrýstingur. Samkvæmt svörunum var það með skýrar hugmyndir um það út á hvað þetta gekk. Fólk var að merkja við hluti eins og „Jafnrétti kynjanna“ og „Baráttu gegn hefndarklámi“ þegar það var spurt um ástæður þátttökunnar. Mjög fáir segjast hafa tekið þátt vegna þrýstings frá vinum eða vegna þess að það var ákveðin stemmning í kringum þetta,“ segir Baldvin en langstærstur hluti þeirra sem svöruðu tóku þátt í áttakinu á einhvern hátt.
„Á þessu sér maður skoðanir fólks í rauntíma. Spurningalistinn fer út á miðvikudeginum og voru flest svör komin inn eftir tvo eða þrjá sólarhringa. Fólk var að svara um leið og atburðurinn var í gangi,“ segir Baldvin. Hann segir jafnframt ljóst að í ljósi frekari umfjöllunar um áttakið í fjölmiðlum megi sjá að þátttakendur voru með skýra sýn á af hverju þeir tóku þátt. „Síðast í gær var sjónvarpsþátturinn Hæpið að fjalla um þetta mál og það virðist nokkuð skýrt í huga þeirra sem tóku þátt hversvegna þeir eru að gera þetta.“
Baldvin fjallaði um rannsóknina á Þjóðarspeglinum, ráðstefnu í félagsvísindum sem fram fór í dag.