Rétthafasamtök kæra lögregluna

Erfitt getur verið að nálgast efni á Pirate Bay eftir …
Erfitt getur verið að nálgast efni á Pirate Bay eftir bannið. Skjáskot af Pirate Bay

Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), segir samtökin ætla að kæra lögregluna á höfuðborgarsvæðinu fyrir aðgerðarleysi gegn deiliskrársíðum á borð við Deildu. Kom þetta fram í máli hennar á málfundi um hugverkarétt sem haldinn var í Háskóla Íslands.

„Við höfum ákveðið að kæra aðgerðarleysi lögreglunnar. Ástæða þess er sú að árið 2012 kærðum við forsvarsmenn Deildu.net fyrir brot á höfundarrétti en síðan þá hefur ekkert gerst,“ segir Guðrún Björk í samtali við mbl.is en að kærunni standa, auk STEF, Samband flytjenda og hljómplötuframleiðenda (SFH), Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK) og Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK) sem áður voru Samtök myndrétthafa á Íslandi (SMÁÍS).

„Við lögðum á sínum tíma fram umtalsverðar sannanir og gögn inn á borð lögreglu en síðan þá hefur í raun ekkert gerst,“ segir hún og bendir á að áðurnefnd rétthafasamtök séu nú með sameiginlegan lögmann og vinnur hann nú að kærunni.

Spurð hvenær hún eigi von á því að kæran verði lögð fram á hendur lögreglu svarar Guðrún Björk: „Mér skilst að þetta sé á lokametrunum og á ég því von á að kæran verði lögð fram á allra næstu dögum - jafnvel í næstu viku.“

Rétthafasamtökin hafa að undanförnu náð samkomulagi við helstu fjarskiptafyrirtæki landsins um framkvæmd lögbanns á veitingu aðgangs að vefsíðunum deildu.net og the PirateBay, en síðurnar deildu afþreyingarefni til notenda sinna.

Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEF.
Guðrún Björk Bjarnadóttir framkvæmdastjóri STEF.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert