Einari Ben komið fyrir við Höfða

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við styttuna af Einari Benediktssyni sem …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri við styttuna af Einari Benediktssyni sem nú stendur við Höfða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stytta Ásmund­ar Sveins­son­ar mynd­höggv­ara af Ein­ari Bene­dikts­syni, ljóðskáldi og at­hafna­manni, sem staðið hef­ur á Klambra­túni, hefur verið sett upp við Höfða, fyrr­ver­andi heim­ili skálds­ins.

Til­lag­an var lögð fram í til­efni þess fyrir nákvæmlega ári síðan en þá voru 150 ár liðin frá fæðingu Ein­ars Bene­dikts­son­ar.

Bætt við klukkan 18:27

„Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tók formlega á móti höggmynd af Einari Benediktssyni við Höfða, fyrrum heimili skáldsins, í dag laugardaginn 31. október á Degi ljóðsins sem jafnframt er fæðingardagur skáldsins. Verkið er eftir Ásmund Sveinsson og var sett upp á Klambratúni árið 1964 þar sem það hefur staðið þar til nú.

Borgarráð samþykkti á síðasta ári að færa styttuna af Klambratúni og tók þannig undir áskorun frá áhugahópi um skáldið sem taldi að minningu Einars væri meiri sómi sýndur með því að koma verkinu fyrir í nágrenni Höfða þar sem hann bjó um tíma.  Listasafn Reykjavíkur hafði umsjón með flutningi styttunnar en jafnframt veittu mennta- og menningarmálaráðuneytið, Eimskip, Hvalur hf., Landsvirkjun, Mjólkursamsalan, Síminn og áhugahópur um minningu skáldsins verkefninu mikilvægan stuðning.

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO hefur sett upp bókmenntamerkingu við Höfða þar sem hægt er að kynna sér sögu skáldsins. Á svokölluðum skáldabekk er hægt að hlusta á upplestur, á íslensku og ensku, á ljóðunum Brim og Norðurljós eftir Einar Benediktsson. Upplesturinn má nálgast með snjallsíma í gegnum qr kóða.

Einar Benediktsson (1864-1940) skáld og athafnamaður bjó í Höfða á árunum 1914-1917. Hann var heimsborgari og hugsjónamaður, ferðaðist víða og lagði fram nýstárlegar og stórbrotnar hugmyndir um þjóðfélagsumbætur, sem hafa haldið nafni hans á lofti, þótt þær yrðu ekki allar að veruleika. Það er þó fyrst og fremst ljóðlist Einars sem lifir og er hann talinn meðal helstu ljóðskálda íslensku þjóðarinnar.  

Höggmynd Ásmunds Sveinssonar (1893-1982) sýnir skáldið standandi við hörpu, tákn skáldskaparins. Í heild er verkið sex metrar að hæð og vildi Ásmundur sýna að Einar væri stór í öllu, hann gæti ekki hugsað smátt. Útgáfufélagið Bragi kostaði gerð myndarinnar og gaf borgarbúum árið 1964.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert