David Cameron nýtti tækifærið sem fólst í fyrstu embættisheimsókn bresks forsætisráðherra á lýðveldistímanum og færði Sigmundi Davíð tvö innrömmuð skjöl úr skjalasafni Winstons Churchills, þáverandi forsætisráðherra, þar sem fjallað er um heimsókn hans til Reykjavíkur í ágúst 1941.
Í fyrra skjalinu er skýrsla Howards Smith, sendiherra Breta á Íslandi, þar sem hann rekur umfjöllun Morgunblaðsins um ræðu Churchills af svölum Alþingishússins hinn 21. ágúst 1941.
Í seinna skjalinu er síðan ræðutexti Churchills sjálfs, leiðréttur með hans eigin rithendi, þar sem hann fjallar um viðdvöl sína hér á landi í kjölfar Atlantshafsfundarins með Roosevelt við Nýfundnaland, að því er fram kemur í umfjöllun um þessa atburði í Morgunblaðinu í dag.