Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri telur breytt neyslumynstur á fjölmiðlum og stóraukið aðgengi að afþreyingu kalla á endurmat hjá RÚV. „Ég lít svo á að á slíkum tímum sé hlutverk Ríkisútvarpsins síst minna en áður en þá þarf að skerpa á hlutverki þjónustunnar og sérstöðu,“ segir Magnús Geir.
Skýrsla nefndar um starfsemi og rekstur RÚV frá 2007 leit dagsins ljós í síðustu viku. Kom þar meðal annars fram að skuldir RÚV nálgast 7 milljarða.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, skipaði nefndarmenn sem voru Eyþór Arnalds athafnamaður, Guðrún Ögmundsdóttir, hjá efnahags- og fjármálaráðuneyti, og Svanbjörn Thoroddsen hjá KPMG.
Af þessu tilefni ræddi mbl.is við Magnús Geir um skýrsluna og helstu niðurstöður hennar.
Fjölmiðlalandslagið að breytast mikið
Nefndin telur tilefni til að RÚV bregðist við miklum breytingum á neyslumynstri fjölmiðla. Hver eru þín viðbrögð við því?
„Það eru gríðarlegar breytingar í aðgengi að dagskrárefni þessi misserin. Aðgangur að erlendum efnisveitum hefur stóraukist og sjálfstæðir miðlar á markaði bjóða upp á gott úrval af erlendu afþreyingarefni. Ég lít svo á að á slíkum tímum sé hlutverk Ríkisútvarpsins síst minna en áður en þá þarf að skerpa á hlutverki þjónustunnar og sérstöðu. Við höfum verið að auka áherslu á innlent efni, menningarefni og höfum stóraukið þjónustu við börn en þar eru skyldur okkar mestar. Þannig getum við tryggt að íslensk þjóð hafi aðgang að framúrskararandi íslensku efni, sögum úr okkar nærumhverfi. Við, sem menningarlega sinnuð þjóð, þurfum á öflugu Ríkisútvarpi að halda. Þó starfsemi RÚV snúist fyrst og fremst um innihald og sögurnar sem við segjum, þá þurfum við auðvitað að tryggja að almenningur geti nálgast þetta efni þar sem kallað er eftir því á hverjum tíma.“
Dragi lærdóm af Vodafone-samningnum
Hvernig hyggst RÚV bregðast við gagnrýni á „íþyngjandi“ og „dýrkeyptan“ samning við Vodafone árið 2013? Kemur til álita að endurskoða samninginn?
„Þessi samningur var gerður eftir útboð á Evrópska efnahagssvæðinu á sínum tíma. Þarna er verið að benda á að dreifingarkostnaður sé hár en hún var sú leið sem valin var á þeim tíma og byggðist á kröfum um sjónvarpsdreifingu sem nær til alls landsins en þetta er sama tækni og er notuð af öllum almannaþjónustumiðlum í Evrópu. Dreifikerfi sem ná eiga til nær allra landsmanna í strjálbýlu landi eiga það sameiginlegt að uppbygging þeirra er kostnaðarsöm. Það er hins vegar sjálfsagt að draga lærdóm af ákvörðunum um stórar fjárfestingar eins og þessa og ég skil skýrsluhöfunda þannig. Þeir leggja ekki til endurskoðun í sinni samantekt.“
Hafa dregið úr yfirbyggingu
Magnús Geir tók við sem útvarpsstjóri árið 2014 af Páli Magnússyni.
Magnús Geir segir nýja stjórn RÚV hafa skorið niður í yfirbyggingu fyrirtækisins.
„Það má eiginlega segja að þessi samantekt um fortíðina sé svarthvít. Hún er svört að því leyti að hún staðfestir það sem við höfum sagt um fortíðarvandann og skuldabaggann. Hún er hvít að því leyti að hún sýnir að lyft hefur verið grettistaki í að snúa rekstrinum við. Í skýrslunni kemur fram að á tímabilinu hafa rekstrargjöld RÚV lækkað um 11%. Fyrri stjórnendur gerðu vel í því að verja þjónustuna og öfluga dagskrá þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Við sem tókum við 2014 höfum svo enn frekar skorið niður yfirbyggingu fyrirtækisins og náð að efla dagskrána á sama tíma. Jafnvægi er komið á í rekstrinum sem er orðinn hallalaus.
Við leigðum út hluta útvarpshússins og seldum byggingarrétt á lóðinni sem mun skila mestu skuldalækkun í sögu félagsins. Stjórnvöld þurfa hins vegar að leiðrétta mistök frá hlutafélagsvæðingunni og ráðamenn að standa við yfirlýsingar sínar um að útvarpsgjald verði ekki lækkað frekar. Ég er þess fullviss að við getum haldið áfram að reka fyrirtækið á sem allra hagvæmastan hátt, og styrkt enn frekar gæði og sérstöðu dagskrárinnar í samvinnu og þjónustu við almenning.“
Þurfa að taka á skuldsetningunni
Hvernig ætlar RÚV að taka á skuldavandanum sem enn verður til staðar eftir sölu byggingarréttar?
„Eftir sölu byggingarréttar nú á dögunum er staðan orðin mun betri og viðráðanlegri en hún hefur verið. En það liggur fyrir að þrátt fyrir þessa sölu þá er félagið enn yfirskuldsett eins og það hefur verið allt frá ohf-væðingu árið 2007. Það hefur verið rætt um langa hríð að það þurfi að taka á þessari miklu skuldsetningu. Okkur hefur gengið vel að vinna á rekstrar- og skuldavandanum, líkt og menntamálaráðherra benti á [á blaðamannafundi sl. fimmtudag] og ég er þess fullviss um að við munum klára það mál,“ segir Magnús Geir.
Fram kom í Morgunblaðinu á föstudaginn var að Magnús Geir hefði óskað eftir því að spurningar bærust til hans skriflega á fimmtudeginum og að hann hefði ekki verið búinn að svara um kvöldmatarleytið sama dag.
Af þessu tilefni vill Magnús Geir að það komi fram að hann hafi sent svör við spurningunum um hálfsjöleytið á fimmtudeginum og svo hringt í borðsíma blaðamanns.