Kristinn Björnsson, fv. forstjóri Skeljungs, lést laugardaginn 31. október sl. eftir skammvinn veikindi, 65 ára að aldri.
Kristinn fæddist í Reykjavík 17. apríl 1950, sonur Björns Hallgrímssonar forstjóra og Emilíu Sjafnar Kristinsdóttur húsfreyju.
Kristinn ólst upp í Reykjavík og varð stúdent frá MR 1970. Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1975 og varð héraðsdómslögmaður tveimur árum síðar. Hann starfaði sem lögfræðingur hjá borgarverkfræðingi Reykjavíkurborgar 1975-1976 og rak lögmannsstofu ásamt Gesti Jónssyni hrl. og síðar Hallgrími B. Geirssyni hrl. frá 1976-1982.
Kristinn varð forstjóri Nóa-Síríusar og Hreins hf. árið 1982 og gegndi því starfi til 1990 er hann var ráðinn forstjóri Skeljungs. Kristinn lét af störfum hjá Skeljungi að eigin ósk haustið 2003. Frá árinu 2005 var hann einn eigenda fyrirtækisins Líflands ehf. og starfandi stjórnarformaður þess.
Kristinn gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir atvinnurekendur og samtök þeirra. Hann sat í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda á árunum 1983-1990 og var varaformaður um skeið, átti sæti í stjórn og framkvæmdastjórn Verslunarráðs Íslands 1986-1996, í stjórn og samningaráði Vinnuveitendasambands Íslands 1988-1999 og varaformaður á árunum 1992-1995. Við stofnun Samtaka atvinnulífsins árið 1999 settist hann í stjórn og framkvæmdastjórn og sat þar um árabil.
Á sínum yngri árum var Kristinn virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins. Átti hann sæti í stjórn Heimdallar 1973-1975, var varaformaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, og var í stjórn SUS 1983-1985. Kristinn var formaður Baldurs, félags ungra sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi, árin 1979-1981 og formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna á Seltjarnarnesi 1983-1985. Þá var hann um skeið í fjármálaráði Sjálfstæðisflokksins.
Kristinn sat í stjórnum fjölda fyrirtækja, eins og hjá H. Benediktssyni, Nóa-Síríusi , Sjóvá, Eimskip, Haraldi Böðvarssyni hf., Hraðfrystihúsi Eskifjarðar, Hans Petersen, Plastprenti, Straumi fjárfestingabanka hf. og Líflandi ehf.
Eftirlifandi eiginkona Kristins er Sólveig Pétursdóttir, fv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins, dómsmálaráðherra og forseti Alþingis. Eignuðust þau þrjú börn; Pétur Gylfa, Björn Hallgrím og Emilíu Sjöfn. Björn Hallgrímur og kona hans, Herborg H. Ingvarsdóttir, eiga fjögur börn; Ingu Bríeti, Kristin Tjörva, Einar Ísak og Markús Braga.
Kristinn átti sæti í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, á árunum 2005-2008.
Morgunblaðið þakkar Kristni störf í þágu blaðsins og sendir fjölskyldu hans og öðrum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur.