Ingvi Hrafn Óskarsson, formaður stjórnar Ríkisútvarpsins ohf., hefur sagt sig úr stjórninni en hann hefur átt þar sæti frá ágúst 2013. Þetta kemur fram í tilkynningu RÚV til Kauphallar Íslands.
„Ég hef gegnt stöðu stjórnarformanns í Ríkisútvarpinu ohf. í rúm tvö ár. Sá tími hefur verið viðburðaríkur og annasömustu viðfangsefnin snúið að hinni erfiðu fjárhagsstöðu félagsins. Þar á meðal hefur stjórn fjallað um umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir, uppsagnir starfsmanna, og samninga um sölu byggingarréttar á lóðinni að Efstaleiti sem ætlað er að lækka skuldir félagins umtalsvert,“ er m.a. haft eftir Ingva í tilkynningunni.
„Mikilvæg skref hafa verið stigin í fjárhagslegri endurskipulagningu, jákvæður viðsnúningur var staðfestur í nýlegu uppgjöri og rekstur félagsins hefur verið hallalaus síðustu 12 mánuði. Þá urðu miklar breytingar á yfirstjórn Ríkisútvarpsins á þessu tímabili með ráðningu nýs útvarpsstjóra, nýju skipuriti og breytingum í framkvæmdastjórn.
Þótt mikilvægum áföngum hafi verið náð í rekstri Ríkisútvarpsins er ljóst að framundan eru umfangsmikil verkefni við að móta framtíð félagsins. Við þær aðstæður tel ég nauðsynlegt að formaður stjórnar Ríkisútvarpsins eigi þess kost að sinna hinum brýnu viðfangsefnum af kostgæfni. Vegna mikilla og vaxandi anna í starfi mínu sem lögmaður sé ég mér því miður ekki fært að verja áfram nauðsynlegum tíma og orku í störf fyrir hönd Ríkisútvarpsins samhliða lögmannsstörfunum. Á þessum tímamótum tel ég því skynsamlegt að annar taki við verkefninu og fylgi því úr hlaði.“
Í tilkynningunni þakkar Ingvi Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra fyrir „einkar gott samstarf, en hann er að mínu mati hæfileikaríkur stjórnandi og hefur staðið sig afar vel við erfiðar aðstæður. Þá er ég einnig þakklátur fyrir þann eindregna stuðning mennta- og menningarmálaráðherra sem stjórn og stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa notið.“
Einnig er vitnað í Magnús Geir sem segir mikla eftirsjá að Ingva úr stjórninni.
„Það er mikil eftirsjá að Ingva Hrafni úr stóli stjórnarformanns RÚV en okkar samstarf hefur verið afar traust og gott síðan ég tók við starfi útvarpsstjóra fyrir einu og hálfu ári. Ingvi Hrafn hefur unnið af einstökum heilindum í þágu Ríkisútvarpsins.“