Meint kynferðisbrot gegn þroskaskertum konum fara ekki fyrir dóm

Kristín Jóna Þórarinsdóttir.
Kristín Jóna Þórarinsdóttir. Skjáskot/Kastljós

Ríkissaksóknari felldi niður mál þeirra Kristínar Jónu Þórarinsdóttur og Hönnu Þorvaldsdóttur, sem báðar glíma við þroskaskerðingu, á hendur karlmanni sem rak sumardvalarheimili á Nýja-bæ ásamt eiginkonu sinni. Kærðu þær manninn fyrir kynferðisbrot en málin tvö voru felld niður þar sem ríkissaksóknari taldi þau ekki líkleg til að leiða til sakfellingar.

Fjallað var um mál kvennanna tveggja í Kastljósþætti kvöldsins og var þar einnig talað við tvo fyrrverandi starfsmenn á dvalarheimilinu sem urðu einnig fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu mannsins. Þá hafði önnur kona, sem starfaði á heimilinu árið 2008, sent eiginkonu mannsins sem er forstöðumaður dvalarheimilisins tölvupóst það sumar eftir að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu mannsins. Sagðist hún hafa hætt eftir að maðurinn hafi „farið yfir strikið gagnvart sér”.

Höfðu samband og báðu um að kæran yrði dregin til baka

Eftir að Kristín hafði kært kynferðisbrotin til lögreglunnar á Selfossi hafði hún aftur samband og vildi hún þá draga kæruna til baka. Kom þá í ljós að ábúendur á Nýja-bæ höfðu sett sig í samband við hana og beðið hana um að draga kæruna til baka.

Í samtali við Kastljósið segir Kristín að forstöðukonan hafi í símtalinu sagt við hana að maðurinn hefði ekki gert henni neitt. Spurði Helgi Seljan, sjónvarpsmaður, hana þá hvort það hafi verið rétt sem, og svaraði Kristín neitandi.

Maðurinn braut ítrekað gegn henni, að því er fram kom í samtali hennar við Kastljós, og segir hún forstöðukonuna hafa verið meðvitaða um brotin, þar sem hún heyrði til hennar skamma hann.

Sömu sögu hefur Hanna að segja. „Hún hundskammaði hann,“ sagði Hanna í samtali við Kastljós. Lýsti hún því hvernig hann hafi þuklað á kynfærum sínum innan klæða, losað um brjóstahaldara hennar, þuklað á brjóstum og stungið fingri í leggöng.

Vissu ekki að hann væri að brjóta á fleirum en sér

Í þætti kvöldsins var rætt við þær Þórönnu Einarsdóttur og Gunnhildi Örnu Hjaltadóttur sem báðar störfuðu á Nýja-bæ. Áreitti maðurinn þær báðar kynferðislega, en þær sögðust báðar hafa verið með breitt bak og hugsað með sér að þær gætu tekið þessu, en vissu ekki hvernig væri í pottinn búið.

Segir Þóranna að hún hafi t.d. verið að brjóta saman þvott þegar maðurinn hafi komið inn til hennar inn í hús áður en hann ætlaði aftur út að þurrka barnabörnum sínum sem höfðu verið í heita pottinum. Setti hann handklæðið utan um hana og sagðist frekar vilja strjúka hennar kropp en þeirra, og vísaði þá til barnabarna sinna.

Forðuðust þær aðstæður þar sem þær yrðu einar með manninum og „blokkuðu“ þær út þau atvik þar sem hann hafði áreitt þær. Sjá þér eftir því núna að hafa ekki aðhafst neitt á sínum tíma en þær héldu að hann væri aðeins að áreita þær, enda vissu þær ekki til þess að fleiri brot hefðu átt sér stað.

Þá lýsti þriðji fyrrum starfsmaðurinn sem hafði starfað á Nýja-bæ við sumardvöl árið 2008 fyrir lögreglu hvernig maðurinn hefði eitt skiptið fylgt henni til herbergis hennar um kvöld, strokið öxlum hennar og brjóstum, og kysst hana. Sagði hún upp störfum og sendi konu hanns og forstöðukonu tölvupóst þar sem hún lýsti því hvað hafði gerst.

Kastljós hyggst fjalla nánar um mál fatlaðra kvenna sem verða fyrir kynferðisofbeldi í þætti morgundagsins, en margt bendir til þess að mál þeirra fái síður framgöngu í réttarkerfinu.

Horfa má á þátt Kastljóss í heild sinni með því að ýta hér.

Mæðgurnar Ólöf Björnsdóttir (t.v.) og Hanna Þorvaldsdóttir (t.h.).
Mæðgurnar Ólöf Björnsdóttir (t.v.) og Hanna Þorvaldsdóttir (t.h.). Skjáskot/Kastljós
Þóranna Einarsdóttir (t.v.) og Gunnhildur Arna Hjaltadóttir (t.h.) störfuðu á …
Þóranna Einarsdóttir (t.v.) og Gunnhildur Arna Hjaltadóttir (t.h.) störfuðu á Nýja-bæ og urðu báðar fyrir kynferðislegri áreitni. Skjáskot/Kastljós
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka