„Það verður reynt aftur í dag, það er það sem liggur fyrir,“ segir Lárus Dagur Pálsson, forstjóri Björgunar. Sanddæluskipið Perla sem liggur á botni Reykjavíkurhafnar er í eigu fyrirtækisins. Helmingslíkur eru taldar vera á því að skipið sé ónýtt.
Perla situr enn sem fastast í Reykjavíkurhöfn en í gærkvöldi var gerð tilraun til að reyna að dæla úr skipinu og koma því á flot. Skömmu eftir að dæling hófst á tíunda tímanum í gærkvöldi var hún stöðvuð að nýju þegar gluggar í brú brotnuðu og sjór streymdi inn í stýrishús skipsins.
Kafarar fóru með hlera niður og gerðu tilraun til að loka fyrir götin en aðgerðum var hætt á tólfta tímanum og því er ljóst að Perla mun enn um sinn sitja á botni hafnarinnar.
„Þetta lítur mjög illa út. Það sem liggur fyrir er að allt rafkerfi er ónýtt, öll tæki í brú. Stundum er hægt að bjarga aðalvélum ef búnaðurinn er skolaður og þrifinn í tíma. Það gefur augaleið að allar innréttingar, ýmsir dælumótorar og allskonar búnaður um borð er að öllum líkindum ónýtur,“ segir Lárus Dagur.
Aðspurður segir hann starfsmenn Björgunar ekki vera farna að reikna út hversu mikið tjónið er. Allur kraftur hafi farið í aðgerðir við Ægisgarð sem miða að því að ná skipinu á flot og koma í veg fyrir mengun.
„Það er einnig verið að rýna í hvað gerðist og af hverju þetta gerðist. Þegar við náum skipinu upp vitum við meira um ástand þess og hvernig neðra byrðið lítur út,“ segir Lárus Dagur. „Við viljum fá greiningu á því hvað gerist, allt frá því að ákveðið er að taka skipið niður og þangað til það sekkur.“