Perla situr enn sem fastast í Reykjavíkurhöfn en í gærkvöldi var gerð tilraun til að reyna að dæla úr skipinu og koma því á flot. Skömmu eftir að dæling hófst á tíunda tímanum í gærkvöldi var hún stöðvuð að nýju þegar gluggar í brú brotnuðu og sjór streymdi inn í stýrishús skipsins. Kafarar fóru með hlera niður og gerðu tilraun til að loka fyrir götin en aðgerðum var hætt á tólfta tímanum og því er ljóst að Perla mun enn um sinn sitja á botni hafnarinnar.
Tilraun verður gerð til að hefja dælingar að nýju síðdegis og koma skipinu á flot í kvöld en það er margt sem getur farið úrskeiðis við framkvæmdina t.a.m. hafa menn nú áhyggjur af því að skipið hafi sokkið djúpt ofan í leðju á botninum og að það gæti orðið til þess skipið myndi losna mjög snögglega ef tækist að dæla mestum sjónum úr því, með þeim afleiðingum að skipið myndi skjótast frá botninum sem gæti verið varasamt.
Það er því ljóst að verkefnið er vandasamt og kafarar og verktakar við höfnina eiga fullt í fangi með að koma Perlu á flot.