Verjandi hjúkrunarfræðingsins, sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi, fór fram á að skjólstæðingur sinn yrði sýknaður í málflutningi sínum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Til vara að hjúkrunarfræðingurinn yrði dæmdur til vægustu mögulegu refsingar samkvæmt lögum. Verjandi Landspítalans, Kristín Edwald, gerði kröfu um að spítalinn yrði sýknaður af öllum kröfum.
Verjandi hjúkrunarfræðingsins, Einar Gautur Steingrímsson, hóf mál sitt á að gera athugasemd við málflutning saksóknara þar sem ákæruatriði sem þar hefðu verið nefnd kæmu ekki fram í ákærunni.
Þannig væri misræmi á milli ákærunnar og ræðu saksóknara. Samkvæmt ákæru væri hjúkrunarfræðingurinn einungis ákærður fyrir þá meintu sök að hafa ekki tæmt loft úr talventli sem karlkyns sjúklingur sem var í hennar umsjá bar sem aftur hafi að mati ákæruvaldsins leitt til dauða mannsins.
Einar benti á að saksóknari hefði nefnt fjögur atriði sem ákært væri fyrir. Þar á meðal að hjúkrunarfræðingurinn hefði ekki kannað hvort vaktarinn við rúm sjúklingsins virkaði sem skyldi og að hún hefði ekki látið hjúkrunarfræðing, sem tók að sér tímabundna umsjá sjúklingsins, vita að talventill hefði verið settur á sjúklinginn. Þetta væri hins vegar ekki á meðal ákæruefna í ákærunni. Þessu hafnaði saksóknari og sagði málið með vaktarann á meðal ákæruefnanna.
Ekki í samræmi við ákvæði hjúkrunarlaga
Hjúkrunarfræðingurinn væri einnig ákærður fyrir brot gegn hjúkrunarlögum samkvæmt ræðu saksóknara. Það er gegn ákvæði þess efnis að hjúkrunarstarfsmenn skuli afla sér þekkingar og viðhalda henni. Þetta ákvæði ætti hins vegar ekki við um það sem hjúkrunarfræðingnum væri gefið að sök. Henni væri þannig gefið að sök að hafa ekki tæmt loft úr talventli þrátt fyrir að hafa vitað að það ætti að gera. Með öðrum orðum að hafa ekki gert það sem hún hafi vitað.
Varðandi loftið í talventlinum sagði Einar hvorki sýnt fram á að það hafi leitt til dauða sjúklingsins né að það hafi raunverulega verið loft í ventlinum. Krufningarskýrsla styddi ekki að loft í talventlinum hefði leitt til andlátsins og sama ætti við um tímasetningar. Ef svo hefði verið hefði sjúklingurinn þurft að geta orðið sér úti um loft í 25 mínútur þrátt fyrir að geta ekki andað frá sér í gegnum talventilinn. Varðandi vaktarann hefði sasóknari ekki sýnt fram á að ástand hans hafi verið orsök andlátsins.
Einar sagði gríðarlega óvissu ríkja um málið. Talventlinum hefði verið hent og fyrir vikið væri ekki vitað hvort hann hefði hugsanlega verið bilaður. Hugsanlegt væri líka að slæmt ástand sjúklingsins hefði einfaldlega leitt til dauða hans. Taka yrði mið af aðstæðum á gjörgæsludeild Landspítalans á þessum tíma. Þar hefði verið mikið álag og mannekla. Hjúkrunarfræðingurinn hafi reynt að gera sitt besta miðað við aðstæður. Þarna hefðu einfaldlega átt sér stað mannleg mistök en ekki gáleysi.
Málflutningum lauk í morgun og var málið lagt í dóm.