Tvö kynferðisbrot til rannsóknar

Tvö kynferðisbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í október.
Tvö kynferðisbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í október. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Tvær kærur voru lagðar fram til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með nokkurra daga millibili vegna kynferðisbrota í október. Meintir gerendur eru tveir karlmenn, þar af annar í báðum tilvikum. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að tvær konur, báðar nemendur í Háskólanum í Reykjavík, hefðu verið beittar grófu kynferðislegu ofbeldi í október og kærur hefðu verið lagðar fram í málunum tveimur.

Árni Þór Sigmundsson yfirlögregluþjónn, vill ekki staðfesta að kærurnar tvær sem hann greinir frá í samtali við mbl.is séu þær sem Fréttablaðið sagði frá í morgun. 

Í umfjöllun Fréttablaðsins segir að meintir gerendur séu tveir karlmenn. Annar sé á fertugsaldri og nemandi við HR en hinn sé á svipuðum aldri en stundi ekki nám við skólann. Tvær skólasystur fyrrnefnda mannsins eru sagðar hafa orðið fyrir grófu kynferðisofbeldi, önnur af hálfu annars en hin af hálfu beggja. Í báðum tilvikum eiga meint brot að hafa átt sér stað eftir bekkjarskemmtanir í miðbæ Reykjavíkur.

Geti haldið námi áfram með eðlilegustum hætti

Þegar mbl.is óskaði eftir upplýsingum frá HR um málið fengust þau svör að skólinn myndi ekki gefa frekari upplýsingar en koma fram í eftirfarandi yfirlýsingu:

Komið hafa fram upplýsingar um alvarlegt atvik innan hóps nemenda í frumgreinadeild HR, utan skólans. Háskólinn hefur boðið þeim nemendum sem málið snertir alla þá aðstoð sem hann getur veitt.

Enn fremur hefur skólinn lagt áherslu á að nám hópsins geti haldið áfram með sem eðlilegustum hætti og að hlutaðeigandi nemendur þurfi ekki að hafa samskipti. Að öðru leiti getur skólinn ekki tjáð sig um málið, enda eru eðlileg ferli fyrir slík mál hjá þar til bærum yfirvöldum.

Aðspurður sagði Eiríkur Sigurðsson, forstöðumaður samskiptasviðs skólans, að yfirlýsingin hefði verið sett saman fyrir fjölmiðla en nemendur skólans hefðu ekki verið upplýstir um málið. 

Í umfjöllun Fréttablaðsins segir að upp hafi komist um fyrra atvikið eftir að það seinna átti sér stað. Þolandi í fyrra málinu hafi ekki mætt í skólann frá því að meint nauðgun átti sér stað.

Þá segir einnig að meintum geranda, sem sagður er vera nemandi við skólann, hafi verið vikið úr skólanum tímabundið. Eiríkur vill ekki staðfesta þetta í samtali við mbl.is. 

Frétt mbl.is: Rannsaka kynferðisbrot á bekkjarskemmtun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert