„Sakfelling í þessu máli yrði mjög slæm og setur heilbrigðisstarfsfólk í mikla óvissu. Það er hætt við því að sakfelling hefði þau áhrif að fólk segði síður frá ef mistök eru gerð. Það mun náttúrulega ekki gera sjúklingum gott. Ef mistök eru gerð er mjög mikilvægt að þau komi upp á yfirborðið og það sé lært af þeim,“ segir Ólafur G. Skúlason, formaður félags hjúkrunarfræðinga, aðspurður að því hvaða áhrif sakfelling í máli hjúkrunarfræðingsins sem nú er ákærður fyrir manndráp af gáleysi hefði. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og í dag en aðalmeðferð lauk síðdegis.
Hann segir að undirmönnum hrjái Landspítalann og að aukin mönnun geti orðið til þess að fækka mistökum. „Rannsóknir hafa sýnt að sé vel mannað af hjúkrunarfræðingum þá farnist sjúklingum betur. Það sem hefur verið að á Íslandi er að það hefur ekki verið nægilega vel mannað að okkar mati.“
Hann segir álagið hafa aukist á undanförnum árum en hjúkrunarfræðingum í starfi hefur ekki fjölgað í takt við það. „Starfandi hjúkrunarfræðingum hefur ekki fjölgað í takt við álagið og nú er búið að hafa það eftir framkvæmdastjóra hjúkrunar á Landspítalanum að hún gæti ráðið um 100 hjúkrunarfræðinga,“ segir Ólafur og bætir við að einhverjar uppsagnir hjúkrunarfræðinga tóku gildi þann 1. október.
En hvernig væri að hans mati best að taka á mistökum? „Ég vil sjá þetta þannig að það verði skipuð einhverskonar rannsóknarnefnd með svipuðu sniði og rannsóknarnefnd samgönguslysa, nema sú nefnd tæki á atvikum í heilbrigðiskerfinu. Þar sem farið yrði yfir hvert atvik skipulega og kerfisbundið og að því komi fólk sem hefur þekkingu af starfsemi heilbrigðisstofnana,“ segir Ólafur og bætir við:
„Ef það svo kæmi upp að eitthvað saknæmt væri í gangi, þá auðvitað yrði því vísað til yfirvalda. En oftast þegar um mistök er að ræða þá eru þau röð atburða og atvika sem fara úrskeiðis.“
Hann segist þó ekki eiga við að heilbrigðisstarfsfólk beri ekki ábyrgð. „Ég er ekki þar með að segja að fólk eigi ekki að bera ábyrgð á því sem það gerir, við sem erum í þessum störfum berum mikla ábyrgð og öxlum hana. En það er yfirleitt ekki eitt atriði sem veldur heldur mörg.“