Talverðrar samstöðu hefur að mati saksóknara gætt hjá vitnum með hjúkrunarfræðingnum sem ákærður er fyrir manndráp af gáleysi. Þetta kom fram í málflutningi Einars Tryggvasonar aðstoðarsaksóknara fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en skýrsla var tekin af vitnum í gær fyrir dómi. Lýsti saksóknari þeirri skoðun sinni að þannig hefði ýmislegt óvænt gerst við skýrslutökuna.
Hjúkrunarfræðingnum er gefið að sök að hafa ekki tæmt loft af talventli sem hún hafði sett á karlkyns sjúkling sem var í hennar umsjá. Það hafi leitt til þess að hann lét lífið. Þetta hafi valdið því að sjúklingurinn hafi getað andað að sér en ekki frá sér sem aftur hafi orðið til þess að hann kafnaði. Hún hafi ennfremur ekki kannað hvort vaktari hjá sjúklingnum hafi verið í gangi og virkað sem skyldi. Þá hafi hún ekki látið hjúkrunarfræðing, sem hún hafi falið að taka tímabundið við umsjá sjúklingsins á meðan hún sinnti öðrum verkefnum, að sjúklingurinn væri með talventil.
„Ég mótmæli svona aðdróttunum“
Vitnaði saksóknari í skýrslutöku lögreglu á hjúkrunarfræðingnum þar sem hún hafi ítrekað sagt að hún hafi ekki tæmt loft af talventlinum þó hún hafi vitað að hún ætti að gera það. Hún hafi einfaldlega gleymt því. Langt væri síðan hún hafi unnið með talventil á gjörgæslu. Fyrir dómi hafi hjúkrunarfræðingurinn hins vegar sagt að hún myndi ekki hvort hún tæmdi loft af talventlinum. Saksóknari sagðist telja að um breyttan framburð væri að ræða. Hann hafi breyst við að það að hún skipti um verjanda. Þessu mótmælti verjandi hjúkrunarfræðingsins, Einar Gautur Steingrímsson, harðlega og sagði: „Ég mótmæli svona aðdróttunum. Þetta sætti ég mig ekki við.“
Saksóknari sagði hjúkrunarfræðinginn engu að síður eiga sér miklar málsbætur. Hún hefði lýst fyrir dómi erfiðri persónulegri reynslu vegna málsins af einlægni og hún hefði hreina sakaskrá. Saksóknari lagði ennfremur í hendur dómsins að meta hvort rétt væri að horfa til þeirra aðstæðna sem fyrir hendi hafi verið kvöldið 3. Október 2012 þegar sjúklingurinn lést. Mikið álag og mannekla.
Saksóknari sagðist telja hæfilega refsingu vera skilorðabundið fangelsi í 4-6 mánuði auk greiðslu sakarkostnaðar upp á rúmar 1,2 milljónir króna. Landspítalinn er einnig ákærður í málinu sem vinnuveitandi og sagðist saksóknari telja fésekt hæfilega.