Dæla úr Perlu að nýju

Hefja á að nýju að dæla sjó úr sanddælingarskipinu Perlu nú upp úr sex, en í dag þurfti að láta skipið síga aftur ofan í höfnina vegna þess að framhluti skipsins varð eftir í kafi á meðan afturhluti þess kom upp á yfirborðið. Nú er fjarað út úr höfninni og aðstæður góðar til þess að gera aðra tilraun við að ná skipinu á flot. 

Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri Köfunarþjónustu Sigurðar, segir að sömu aðferð verði beitt við að ná skipinu upp en menn muni gæta þess betur að halda jafnvægi á því. Þegar gerist eins og í morgun að þyngdarpunktur skipsins færist svo mikið á annan hluta þess sé ógerningur að ná skipinu öllu á flot. Tveir vörubílar ásamt krana verði nýttir til þess að halda skipinu stöðugu. 

Gísli Gíslason, framkvæmdastjóri Faxaflóahafna, segir að hafa þurfi í huga að verkið sé flóknara en það geti virst í fyrstu. Mikilvægast sé að hafa stjórn á aðstæðunum og gæta þess að fara varlega. Hann segir að menn hafi áttað sig á því að það væru vasar inn í skipinu sem gætu sem gætu fyllst af vatni haft áhrif á stöðugleika skipsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert