Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, stendur við ummæli um að hann telji fulltrúa RÚV hafa veitt fjárlaganefnd rangar upplýsingar varðandi skilyrt aukaframlag til RÚV að fjárhæð 182 milljónir í ár.
Fram kom á vef RÚV í kvöld að fjármálaráðuneytið teldi RÚV hafa uppfyllt skilyrði vegna skilyrts aukaframlags til RÚV að fjárhæð 182 milljónir í ár. Fjallað hefur verið um málið á mbl.is.
Byggist fréttin á svari ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra fjárlagaskrifstofu ráðuneytisins við fyrirspurn RÚV.
Sagt var að ráðuneytið teldi að upplýsingagjöf hafi verið með réttum hætti. Tilefnið eru þau ummæli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, varaformanns fjárlaganefndar, í Morgunblaðinu síðastliðinn þriðjudag að fulltrúar RÚV hafi veitt nefndinni rangar upplýsingar í málinu sl. vor.
Haft var eftir Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra í Morgunblaðinu á miðvikudag að brugðist yrði við þessari fullyrðingu þingmannsins.
Á eftir að afgreiða málið
Spurður um fullyrðingar hans í Morgunblaðinu minnti Guðlaugur Þór á að ráðherranefnd um ríkisfjármál eigi að taka aukaframlagið til afgreiðslu.
„Forystumenn Ríkisútvarpsins sögðu í fjárlaganefnd að þeir hefðu fengið staðfestingu í pósti frá fjármálaráðuneytinu 26. mars 2015 um að þeir hefðu uppfyllt skilyrðin. Það er ekki rétt. Allir sem lesa tölvupóstinn sjá að hann staðfestir ekki það. Þvert á móti er verið að senda gögnin og hugsanlega biðja um viðbótargögn til að senda til ráðherranefndar um ríkisfjármál. Í bókun með fjárlögunum kemur einmitt fram að það er sú nefnd sem þarf að staðfesta skilyrðin. Það er algjörlega kýrskýrt að Ríkisútvarpið gaf ekki réttar upplýsingar fyrir fjárlaganefndinni,“ segir Guðlaugur Þór.
Málin komin í annan farveg
Umræddir tölvupóstar voru milli Ingvars Hrafns Óskarssonar, sem hætti á mánudaginn var sem formaður stjórnar RÚV, og starfsmanns fjármálaráðuneytisins.
Póstur Ingva Hrafns var svohljóðandi: „Í fjárlögum liggur fyrir í greinargerð skilyrði sem lúta að fjárveitingu til Ríkisútvarpsins ohf. og þar á meðal um tiltekna upplýsingagjöf sem kveðið er á um að skuli eiga sér stað fyrir næstu mánaðamót. Málin hafa hins vegar farið í nokkuð annan farveg en greinargerðin mælir fyrir um. Starfshópur á vegum fjármálaráðherra, forsætisráðherra og menntamálaráðherra hefur að undanförnu farið yfir og greint fjárhagsupplýsingar og rekstraráætlanir félagsins og ráðstafanir vegna fjárhagsstöðunnar eru til skoðunar.
Með þessum tölvupósti óskast staðfest af hendi fjármálaráðuneytisins að ekki sé krafist að Ríkisútvarpið leggi fram sérstaka rekstraráætlun til viðbótar við þau gögn sem þegar hafa verið kynnt framangreindum vinnuhópi, og að RÚV teljist ekki hafa brotið gegn skilyrðum fjárlaga með því að leggja ekki fram umrædda rekstraráætlun á þessu stigi.“
„Hópurinn hefur gögnin til skoðunar“
Svaraði fulltrúi ráðuneytisins bréfinu með þessum orðum:
„Ég get staðfest að starfshópur á vegum ráðuneytanna þriggja hefur móttekið gögn frá Ríkisútvarpinu ohf. í samræmi við þau skilyrði sem fjárlaganefnd setti í nefndaráliti við aðra umræðu fjárlaga. Hópurinn hefur haft gögnin til skoðunar og ekki er útilokað að hópurinn óski eftir viðbótargögnum áður en málið verður lagt fyrir ráðherranefnd um ríkisfjármál.“
Guðlaugur Þór ítrekar þau ummæli sín að svar ráðuneytisins sé ekki í samræmi við fullyrðingar forystumanna RÚV.
Þá rifjar Guðlaugur Þór það skilyrði með aukaframlaginu að rekstraráætlanir um starfsemi RÚV skuli liggja fyrir eigi síðar en í lok mars 2015 og skuli yfirfarnar af ráðherranefnd um ríkisfjármál. Verði það mat nefndarinnar að þær áætlanir dugi ekki til þess að ná markmiðum um sjálfbæran rekstur stofnunarinnar hafi verið áformað að fyrrgreind fjárheimild verði felld niður í fjáraukalögum fyrir árið 2015.