Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á ráni í Gullsmiðjunni í Hafnarfirði í október er á lokastigi. Einn mun sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna þar til dómur fellur í málinu enda talinn hættulegur. Aðeins lítill hluti af þýfinu hefur fundist.
Þrír hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknar málsins, síðast á þriðjudaginn í þessari viku en þá var hinn maðurinn sem tók beinan þátt í ráninu handtekinn. Eftir handtöku hans fóru málin að skýrast verulega og hefur hann verið látinn laus, auk þess sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald um mánaðarmótin.
Sá sem sæta mun gæsluvarðhaldi áfram er maðurinn sem handtekinn var af lögreglu í Keflavík sama dag og ránið var framið. Þegar lögregla ætlaði að handtaka hann skaut hann að sérsveitarmönnum með öflugri gasbyssu sem í voru málmbikarar. Hann er talinn hættulegur og féllst héraðsdómur á að hann myndi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna. Hann hefur, auk hins mannsins sem tók beinan þátt í ráninu, áður komið við sögu hjá lögreglu.
Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segist gera ráð fyrir að málið verði sent til ríkissaksóknara á næstu tveimur vikum og ekki muni líða langur tími þar til dómur fellur í málinu. Hann segir málið alvarlegt. Fjölmargar húsleitir voru gerðar í tengslum við málið en aðeins lítill hluti þýfisins hefur skilað sér aftur.