Perlan hvílir í höfninni næstu daga

Perlan var smíðuð árið 1964 og er hún skráð 500 …
Perlan var smíðuð árið 1964 og er hún skráð 500 brúttótonn, en þungatonn skipsins eru 275. Skipið sökk við Ægisgarð um klukkan 11 sl. mánudag. mbl.is/Júlíus

Það er flókið og vandasamt verk að ná dæluskipinu Perlu úr Reykjavíkurhöfn. Tekist hefur að lyfta skipinu að hluta og stýra stöðugleika þess. Hafnarstjóri segir hins vegar að dæling úr skipinu eða aðrar aðgerðir verði ekki reyndar næstu daga.

Fram kemur í tilkynningu frá Gísla Gíslasyni hafnarstjóra, að farið hafi verið yfir stöðuna á fundi með björgunaraðilum í dag. Eru meginniðurstöðurnar eftirfarandi: 

  • Björgun ehf. ásamt ráðgjöfum sínum, tryggingafyrirtæki og verktökum, munu fara yfir stöðu mála og skila Faxaflóahöfnum sf. nýrri aðgerðaráætlun fimmtudaginn 12. nóvember n.k.
  • Samhliða yfirferð Björgunar verður reynt að skoða ástand skipsins betur, en ljóst er að enn er mikill leki að skipinu, sem komast þarf fyrir.
  • Þegar ný aðgerðaráætlun liggur fyrir verður hún kynnt viðkomandi aðilum.
  • Vakt verður höfð við skipið þar til aðgerðir hefjast að nýju.
  • Af hálfu Faxaflóahafna sf. og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins verður fylgst með því að ekki berist mengun frá skipinu, en gripið til aðgerða ef útaf bregður.
  • Hæglætis veðri er spáð næstu viku þannig að ekki er búist við að breyting verði á stöðu skipsins þar sem það liggur við Ægisgarð. 

Perlan sökk við Ægisgarð um kl. 11:00 sl. mánudag. Ráðstafanir voru þegar gerðar til varnar mengun í gömlu höfninni og hófst undirbúningur að því að koma skipinu á flot.

„Björgun ehf. skilaði aðgerðaráætlun til Faxaflóahafna sf. þriðjudaginn 3. nóvember og hefur verið unnið eftir þeirri áætlun síðustu daga. Fjölmargir aðilar hafa komið að verkinu, en megin þungi þess hvílt á starfsmönnum Björgunar, Köfunarþjónustu Sigurðar og verkfræði og ráðgjafafyrirtækinu Navis og Ráðgarði,“ segir í tilkynningu.

Þá segir, að sú aðferðafræði sem beitt hafi verið í aðgerðunum sé að þétta skipið og dæla síðan úr rýmum til að ná skipinu upp. Tekist hafi að lyfta skipinu að hluta og stýra stöðugðgleika þess, en þó svo að sá árangur hafi náðst sé ljóst að huga þurfi að fleiri atriðum svo verkefnið takist að fullu. Áhersla hafi verið lögð á að verkefnið sé  flókið og vandasamt, en reynsla síðustu daga hafi leitt ýmislegt í ljós, sem verði nú yfirfarið næstu daga.

„Ljóst er að dæling úr skipinu eða aðrar aðgerðir verða ekki reyndar næstu daga.  Áhersla er lögð á að verkefnið er vandasamt og því mikilvægt að taka þann tíma í lausn þess sem þarf,“ segir Gísli í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert