Það er flókið og vandasamt verk að ná dæluskipinu Perlu úr Reykjavíkurhöfn. Tekist hefur að lyfta skipinu að hluta og stýra stöðugleika þess. Hafnarstjóri segir hins vegar að dæling úr skipinu eða aðrar aðgerðir verði ekki reyndar næstu daga.
Fram kemur í tilkynningu frá Gísla Gíslasyni hafnarstjóra, að farið hafi verið yfir stöðuna á fundi með björgunaraðilum í dag. Eru meginniðurstöðurnar eftirfarandi:
Perlan sökk við Ægisgarð um kl. 11:00 sl. mánudag. Ráðstafanir voru þegar gerðar til varnar mengun í gömlu höfninni og hófst undirbúningur að því að koma skipinu á flot.
„Björgun ehf. skilaði aðgerðaráætlun til Faxaflóahafna sf. þriðjudaginn 3. nóvember og hefur verið unnið eftir þeirri áætlun síðustu daga. Fjölmargir aðilar hafa komið að verkinu, en megin þungi þess hvílt á starfsmönnum Björgunar, Köfunarþjónustu Sigurðar og verkfræði og ráðgjafafyrirtækinu Navis og Ráðgarði,“ segir í tilkynningu.
Þá segir, að sú aðferðafræði sem beitt hafi verið í aðgerðunum sé að þétta skipið og dæla síðan úr rýmum til að ná skipinu upp. Tekist hafi að lyfta skipinu að hluta og stýra stöðugðgleika þess, en þó svo að sá árangur hafi náðst sé ljóst að huga þurfi að fleiri atriðum svo verkefnið takist að fullu. Áhersla hafi verið lögð á að verkefnið sé flókið og vandasamt, en reynsla síðustu daga hafi leitt ýmislegt í ljós, sem verði nú yfirfarið næstu daga.
„Ljóst er að dæling úr skipinu eða aðrar aðgerðir verða ekki reyndar næstu daga. Áhersla er lögð á að verkefnið er vandasamt og því mikilvægt að taka þann tíma í lausn þess sem þarf,“ segir Gísli í tilkynningunni.