Smálánafyrirtæki í hart við Neytendastofu

Smálánum fylgir enginn smá kostnaður.
Smálánum fylgir enginn smá kostnaður. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tvö smálánafyrirtæki, Kredia ehf. og Smálán ehf, hafa höfðað mál á hendur Neytendastofu og vilja láta ógilda ákvörðun áfrýjunarnefndar neytendamála sem snýr að útreikningi á heildarlántökukostnaði.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 18.nóvember næstkomandi en fyrirtækin krefjast þess að stjórnvaldssektir sem þau hafa verið látin greiða að andvirði hálf milljón króna verði felldar niður. 

Ákvörðunin sem fyrirtækin fella sig ekki við snýr að því hvernig þau reikna út heildarlántökukostnað. Álit Neytendastofu, sem staðfest var með úrskurði áfrýjunarnefndar neytendamála, var að raunverulegur kostnaður við lán fyrirtækjanna væri 3.214% árlegrar hlutfallstölu kostnaðar. Fyrirtækin andmæla þessu og segja ekki rétt að taka svonefnt flýtigjald með í útreikning á heildarkostnaði, sé það ekki gert þá falli kostnaður innan 50% hámarks árlegrar hlutfallstölu kostnaðar sem kveðið er á í lögum.

Að auki kemur fram í stefnum fyrirtækjanna gagnrýni á lög um neytendalán, einkum 26.grein þeirra laga þar sem kveðið er á um áðurnefnt 50% hámark. „Bæði gengur ákvæðið mun lengra en nauðsynlegt er auk þess sem tilgangurinn virðist vera sá að koma smálánafyrirtækjum, einum lánafyrirtækja, fyrir kattarnef.“  

Fjallað er ítarlega um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert