Andlát: Gunnar Hansen

Gunnar Hansen.
Gunnar Hansen. mbl.is/Valdís

Leikarinn Gunnar Hansen er látinn, 68 ára að aldri. Gunnar er þekktastur fyrir að hafa leikið í hrollvekjunni The Texas Chainsaw Massacre fyrir rúmum fjórum áratugum.

Umboðsmaður Gunnars greindi frá andlátinu, sem fjallað er um í bandarískum fjölmiðlum. Hann lést á heimili sínu í Maine í gær, en banamein Gunnars var krabbamein.

Gunnar fæddist í Reykjavík árið 1947 en flutti til Bandaríkjanna þegar hann var fimm ára gamall.

Fyrsta kvikmynd Gunnars var ofangreind hrollvekja þar sem hann lék keðjusagarmorðingjannn Leðurfés. Kvikmyndin kom út árið 1974.   

Gunnar greindi eitt sinn frá því, að fólk hefði orðið mjög hissa þegar það komst að því að hann hefði leikið hlutverkið, því hann væri gjörólíkur persónunni í myndinni. Hann lék í 30 kvikmyndum um ævina.

„Ég ætlaði aldrei að verða leikari og finnst frábært að hafa fengið tækifæri til þess að vera með í þessari mynd, hún hefur opnað fjölmargar dyr fyrir mig,“ sagði Gunnar í samtali við Morgunblaðið árið 2008.  

„En myndin hafði mikil áhrif á hryllingsmyndir því þær voru í öngstræti á þessum tíma, þær voru óáhugaverðar, það var endalaust blaðrað í þeim og þær voru mjög kurteisar, þær létu þig vita hvenær þær voru að fara að skelfa þig og þær létu þig vita hvenær þú varst öruggur og gast andað léttar,“ sagði Gunnar í sama viðtali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert