Búast má við ísingu á vegum með kvöldinu að sögn veðurfræðings Vegagerðarinnar, eða á milli klukkan 18 og 21. Þá verða tafir á Hellisheiði til austurs í nótt vegna vinnu við vegbúnað.
Fram kemur í tilkynningu að tafir verði frá klukkan 23 í kvöld til klukkan 6 í fyrramálið. Umferð verður hleypt í gegn í hollum. Vegagerðin bendir þeim ökumönnum sem vilja komast hjá bið að fara veginn um Þrengslin.
Að sögn veðurfræðings Vegagerðarinnar, verða áframhaldandi skúraleiðingar um vestanvert landið fram eftir degi, en bleytusnjór fjallvegum.
„Það eru allar horfur á að það létti til síðdegis og í kvöld. Um leið lægir. Sunnan og suðvestanlands er gert ráð fyrir að ísing myndist á vegum á milli kl. 18 og 21. Einnig, en e.t.v. heldur síðar í kvöld vestur um, allt norður í Skagafjörð.“