„Nú er komið nóg,“ sagði Oddný Arnarsdóttir, við upphaf ræðu sinnar utan við lögreglustöðina við Hverfisgötu í kvöld og uppskar mikið lófaklapp og stuðningshróp.
Mikill mannfjöldi kom saman við lögreglustöðina í kvöld til að mótmæla því að tveir menn sem sakaðir eru um að hafa nauðgað tveimur konum í íbúð í Hlíðunum gangi lausir. Var mikill hiti í mótmlendum og stigu tugir í pontu, bæði karlar og konur, þolendur, foreldrar þolenda og aðrir sem ekki hafa reynt kynferðisbrot á eigin skinni.
„Einhvern veginn virðist ábyrgðin liggja hjá þolendunum en ekki gerendunum og hvað þá hjá kerfinu,“ sagði Oddný, sem var helsti skipuleggjandi mótmælanna. „Það er algjörlega ólíðandi. Svo ég er hér í dag aðallega til að sýna samstöðu með þolendum kynferðisbrotamanna.“
Oddný sagðist geta talið of mörg dæmi um fólk í kringum sig sem orðið hefur fyrir barðinu á kynferðisbrotum og að hún skildi hreinlega ekki af hverju ekkert væri að gert.
„Af hverju er þessi málaflokkur fjársveltur? Af hverju eru vægir dómar? Af hverju er ekki verið að fullnýta refsirammann? Af hverju er sönnunarbyrðin svona erfið í þessum málum? Af hverju komast þau ekki inn á borð lögreglunnar? Ég bara hreinlega spyr?“
Oddný kvaðst hafa rætt við þolanda sem bað hana um að koma á framfæri spurningum um hvað fólk á öryrkjabótum vegna áfallastreituraskana, sjálfsmorðshugsana og kvíða vegna nauðgana kosti samfélagið. „Af hverju erum við ekki að reyna að koma í veg fyrir þetta? Af hverju erum við alltaf að tala um þetta eftir á, eftir að það er búið að fremja sálarmorðið? Hvar er ábyrgðin, fyrirfram?“
Mótmælin stóðu yfir í um tvo klukkutíma og voru fjölsótt, eins og áður segir. Eins og fram hefur komið í fréttum mbl.is steig Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, í pontu þegar nokkuð var liðið á mótmælin en var illa tekið. Sigríður og Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjóra, voru báðar viðstaddar lengi framan af en þegar líða tók á fór að bera meira á kröfu um svör frá lögreglu og að forsvarsmenn hennar kæmu út. Hóf hópurinn m.a. að kyrja „Komið út“ eins og sést á meðfylgjandi myndskeiði.
Eitt áhrifamesta augnablik mótmælanna átti sér hinsvegar stað nokkuð fyrr þegar ung kona steig í pontu og færði mótmælendum þakkir, sem þolandi kynferðisofbeldis.
„Ég er komin úr gæsluvarðhaldi heiman frá mér og það er ykkur að þakka.“
Meira sagði konan ekki en henni var ákaft fagnað og var þetta ekki í fyrsta né síðasta sinn sem tár sáust spretta fram meðal þátttakenda í mótmælunum. Margir þeirra sem tóku til máls börðust við tárin og aðrir leyfðu þeim að flæða frjálst.
„Það sem vakti mestan óhug hjá mér við þetta mál er að ég er sjálf þolandi kynferðisofbeldis,“ sagði Steinunn Ólína Hafliðadóttir, nemi og formaður SÍF, ein þeirra fyrstu sem steig í pontu.
„Ég kærði ekki, fór ekki áfram með þetta af því að mér fannst ekki hafa verið brotið nógu mikið á mér. Síðan kemur frétt í dag þar sem talað er um helvítis nauðgunar-íbúð í Hlíðunum og það virðist ekki einu sinni nóg til að koma þeim sem eru grunaðir um gæsluvarðhald.“
Steinunn talaði styrkri röddu en var mikið niðri fyrir. Spurði hún hvernig þolendur ættu að þora að kæra eftir að þetta mál væri komið fram, án þess að lögreglu þætti tilefni til gæsluvarðhalds.
„Ég vil sjá breytingar, og það strax.“
„Ég stóð fyrst utan við þessa stöð á leiðinni inn þegar ég var 15 ára að kæra mína gerendur,“ sagði Eva Lind Þuríðardóttir þegar hún steig í pontu.
„Þeir voru fleiri en einn og þeir voru fleiri en tveir og ofbeldið hafði átt sér stað í mörg ár. Og hér stend ég enn. Og ég ætla ekki að gefast upp.“
Eva kvaðst ekki bara standa utan við stöðina fyrir sjálfa sig heldur fyrir allar konur, menn og börn í landinu. „Ég fór líka með dóttur mína í gegnum héraðsdóm. Hún var beitt kynferðislegri misnotkun og ofbeldi þegar hún var sex ára þannig að ég þekki þetta vel af eigin raun. Takk fyrir að koma, þið eruð frábær.“
Ýmsar hliðar voru ræddar á mótmælunum. Var lögð áhersla á að karlmönnum er líka nauðgað en sömuleiðis á að karlmenn eru í yfirgnæfandi meirihluta meðal gerenda og að það væri ekki síst á ábyrgð karlmanna að berjast gegn nauðgunum. Þá var minnt á Nýja-bæjar málið svokallaða sem fjallað var um í Kastljósi í síðustu viku þar sem fatlaðar konur nýttu sér allar hefðbundnar og lögbundnar leiðir við kæru á starfsmanni sumardvalarheimilisins Nýja-bæjar en ríkissaksóknari felldi málið niður.
„Þetta er magnað og algjört „empowerment“, sagði Oddný þegar blaðamaður mbl.is náði af henni tali rétt fyrir 19. „Ég tek hattinn ofan fyrir því fólki sem hefur talað hér í kvöld. Þetta er sko alls ekki búið. Ég er að vona að þetta sé bara fyrsta skrefið og að við höldum áfram. Við skulum ekki gleyma.“
Mótmælendur höfðu komið fyrir skiltum við inngang lögreglustöðvarinnar þegar nokkuð var liðið á mótmælin en RÚV segir að jafnframt hafi hún nú verið grýtt með eggjum. Mótmælin fóru að öðru leyti friðsamlega fram.