Ekki ástæða til að fara fram á gæsluvarðhald

Lögreglan getur aðeins veitt takmarkaðar upplýsingar um málið.
Lögreglan getur aðeins veitt takmarkaðar upplýsingar um málið. mbl.is/Þórður

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu getur aðeins veitt takmarkaðar upplýsingar varðandi umfjöllun um ásakanir á hendur tveimur karlmönnum um gróf kynferðisbrot sem eru sögð hafa verið framin í íbúð í Reykjavík. Mikil umræða hefur farið af stað á samfélagsmiðlum um málið. Lögreglan getur lítið gefið upp annað en að málið sé í rannsókn og að henni miði ágætlega.

Lögreglan segir hins vegar að ekki hafi verið talin ástæða að fara fram á að mennirnir yrðu úrskurðaðir í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að húsleit hafi verið gerð í íbúð í Hlíðunum í Reykjavík þar sem kynferðisbrot gagnvart tveimur konum í tveimur aðskildum málum hafi verið framin. Eru mennirnir sagðir vera á fertugsaldri. Fyrstu fréttir af málinu komu fram í Fréttablaðinu 4. nóvember sl.

Handteknir og hafðir í haldi í sólarhring

Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is, að hann geti lítið sagt annað en að lögreglan hafi tvö aðskilin mál til rannsóknar og þau tengist sama stað. Einn karlmaður er grunaður í báðum málunum en hinn maðurinn í öðru þeirra.

Það var seinna málið, sem lögreglan hefur til rannsóknar, sem var kært fyrst. Eru báðir mennirnir sagðir tengjast því. Í framhaldinu barst önnur kæra sem tengist aðeins öðrum þeirra.  

„Þessir menn voru handteknir, hafðir í haldi og húsleit framkvæmd. Þeir voru í haldi í tæpan sólarhring. Það þótti ekki ástæða vegna rannsóknarhagsmuna að fara fram á gæsluvarðhald. Mönnunum var sleppt,“ segir Árni Þór. 

„Ekki frá okkur komið“

Varðandi umfjöllun Fréttablaðsins í dag, sem segir m.a. frá húsleit í Hlíðunum, segir Árni Þór að þetta sé ekki frá lögreglunni komið. „Þetta eru einhverjar upplýsingar sem eru ekki komnar frá okkur,“ segir hann. 

Spurður hvort upplýsingarnar sem komi fram í blaðinu séu ekki réttar, áréttar Árni Þór að hann vilji ekkert tjá sig um það sem komi að umræddri húsleit. „Það er ekki frá okkur komið,“ ítrekar hann.

Spurður hvort fleiri mál hafi komið á borð lögreglu sem tengist þessum mönnum, svarar Árni Þór því neitandi. Hann segir aftur á móti að rannsókn sé í fullum gangi og miði ágætlega.

Margir áhyggjufullir

Mikil umræða hefur farið í gang í tengslum við málin á samfélagsmiðlum. Margir eru áhyggjufullir og á Facebooksíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur fólk lýst yfir áhyggjum og furðað sig á því hvers vegna mennirnir gangi lausir, þ.e. hvers vegna þeir hafi ekki verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Eins og einn fyrirspyrjandi skrifar: „Ef almenningi stafar ekki hætta af þessum mönnum, hver er þá nógu hættulegur til að sitja í gæsluvarðhaldi? Telst það ekki til almannahagsmuna að konur séu öruggar í Reykjavík?“

Eftirfarandi svar barst frá lögreglunni: „Við megum ekki ræða tiltekin mál á opinberum vettvangi og getum því ekki útskýrt hvaða ástæður liggja að baki þegar þessi tiltekna ákvörðun er tekin. Almennt má segja að hjá okkur hefur alla tíð frá 2007, þegar kynferðisbrotadeildin okkar er stofnuð, lagt kapp á að nýta allar rannsóknarheimildir sem lögreglu standa til boð, þ.m.t. húsleitir, tæknirannsóknir og gæsluvarðhöld, svo eitthvað sé nefnt. Í öllum málum þarf að skoða atvik til þess að meta hvort að málið uppfylli skilyrði þessarra aðgerða. Þannig þarf þetta mat alltaf að fara fram og í öllum tilvikum gerum við okkar allra besta til að ákvarða rétt.“

Íbúð í Hlíðunum notuð til nauðgana

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka