Rannsókn lögreglu á tveimur brotum sem kærð voru í október og sögð eru hafa verið framin í risíbúð í fjölbýlishúsi í Hlíðunum í Reykjavík miðar vel að sögn Árna Þórs Sigmundssonar yfirlögregluþjóns og er stefnt að því að ljúka henni eins fljótt og auðið er. Vildi hann ekki tjá sig frekar um málið eða rannsóknina í samtali við mbl.is.
Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar í íbúðinni þar sem meint brot eru sögð hafa átt sér stað. Þá birti Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður annars mannsins sem hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot, myndskeið á Facebooksíðu sinni í nótt sem sýnir umrædda íbúð í Hlíðunum í Reykjavík, eins og greint var frá á mbl.is í morgun.
Í umfjöllun Fréttablaðsins í gær kom fram að húsleit hefði verið gerð í fjölbýlishúsi í Hlíðarhverfi í Reykjavík, þar sem talið væri að tvær árásir í tveimur að aðskildum kynferðisbrotamálum hafi átt sér stað. Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar.
Fyrri nauðgunin er sögð hafa átt sér stað eftir bekkjarskemmtun háskólanemanna á skemmtistaðnum Austur, í umræddri íbúð í Hlíðunum. Níu dögum síðar á hinni konunni að hafa verið nauðgað, í sömu íbúð, af báðum mönnunum eftir bekkjarskemmtun á Slippbarnum.
Umráðamaður íbúðarinnar er maðurinn sem starfaði hjá Reykjavík Marina, sem rekur Slippbarinn. Samkvæmt upplýsingum frá samnemendum kvennanna leikur grunur á að mennirnir hafi í það minnsta í öðru tilvikinu byrlað konunni ólyfjan áður en ráðist var á hana.
Í fréttinni segir að samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins hafi lögregla fundið í íbúðinni ýmis tól og tæki sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur. Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna á meðan ráðist var á hana.
Lögreglan vill ekki staðfesta hvað hafi fundist við húsleitina. Hún staðfestir þó að húsleit hafi verið gerð í framhaldi af því að mennirnir voru handteknir.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, verjandi annars mannsins sem er grunaður í málinu og umbjóðandi beggja mannanna, sagði á Facebook-síðu sinni í að lögreglan hafi verið löngu búin að gera húsleit áður en myndbandið sem hann birti á Facebook-síðu sinni í nótt var tekið upp.
Hann segir að íbúðin sé ekki sérútbúið nauðgunargreni. Það að eiga hluti sem tengjast bdsm sé ekki refsivert. „Það gerir híbýli fólks ekki að húsnæði útbúnu til nauðgana er það? Önnur hver húsmóðir á Nesinu á slíka hluti eftir 50 shades of grey.“