Krefjast leiðréttingar og miskabóta

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er verjandi annars mannsins.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er verjandi annars mannsins. mbl.is/Golli

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður mannsins sem kærður hefur verið fyrir tvö kynferðisbrot í október síðastliðnum, segir að í fyrra málinu viðurkenni umbjóðandi sinn að hafa átt samræði við konuna en það hafi verið með samþykki þeirra beggja.

Í seinna tilvikinu hafi sú sem kærir báða mennina átt munnmök við annan þeirra í stutta stund og segir hún það hafi verið með samkvæmt skipun hins. Mennirnir hafna atvikalýsingunni þó alfarið.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur til rannsóknar tvö kynferðisbrot sem bæði voru kærð í október. Sami maðurinn er kærður í báðum málunum. Í umfjöllun Fréttablaðsins í gær kom fram að rannsókn lögreglu beinist að húsnæði í fjölbýlishúsi í Hlíðunum í Reykjavík. Herma heimildir blaðsins að árásirnar hafi verið hrottalegar og að íbúðin hafi verið búin tækjum til ofbeldisiðkunar. 

Annar maðurinn er sagður vera nemandi við Háskólann í Reykjavík þar sem bæði fórnarlömbin eru einnig sögð stunda nám. Hinn maðurinn sé á svipuðum aldri en starfi á hótelinu Reykjavík Marina. Lögreglan gerði húsleit í íbúðinni í framhaldi af handtöku mannanna sem var sleppt að lokinni frumrannsókn lögreglu. Hvorki var farið fram á gæsluvarðhald né farbann yfir mönnunum. 

Vilhjálmur staðfestir að mennirnir séu báðir farnir úr landi og segir ferðina hafa verið löngu ákveðna. „Ég tel að þeir hafi verið heppnir að vera ekki hér,“ segir hann og bætir við að mennirnir eigi báðir miða heim til Íslands á ný.

Tók hann við sem verjandi mannsins síðdegis í gær. „Ég hef sent Fréttablaðinu tvö kröfubréf fyrir hönd beggja umbjóðanda minna sem eru með réttarstöðu sakbornings í þessu máli og um var fjallað í þessari skelfilegu frétt Fréttablaðsins í gær. Ég vænti svara frá lögmanni Fréttablaðsins,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Vill hann að fréttin verði leiðrétt, mennirnir beðnir afsökunar og þá fara mennirnir hvor um sig fram á 10 millj­ón­ir króna í miska­bæt­ur. Þá hefur Vilhjálmur einnig lagt fram kæru á hendur stúlkunum tveimur fyrir rangar sakagiftir.

Lögðu hald á gamla svipu, tölvu og keðjur af boxpúða

Vilhjálmur birti í nótt myndskeið sem hann segir sýna íbúðina þar sem meintar nauðganir eiga að hafa farið fram. Myndskeiðinu fygldi eftirfarandi texti: „Í Fréttablaðinu í gær, 9. nóvember 2015, var því slegið upp á forsíðu, að íbúð í Hlíðunum hafi verið útbúin til nauðgana. Hér er myndband af íbúðinni. Dæmi nú hver fyrir sig.

Engu að síður kýs aðalritstjóri Fréttablaðsins að berja höfðinu við steininn og segir í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í gær að Fréttablaðið standi við fréttina. Kærðu neita alfarið sök og styðja gögn málsins og vitnisburðir framburð þeirra. Aftaka kærðu á netinu í gær mun verða íslendingum til vansa um aldir alda. Á því ber Fréttablaðið fulla ábyrgð ásamt hlutaðeigandi mykjudreifurum. Á þá ábyrgð mun reyna.“

Á Face­book síðu sinni svar­ar Vil­hjálm­ur spurn­ingu les­anda um hvort meint­ur nauðgari hafi fjar­lægt þá muni sem rætt er um í frétt  Frétta­blaðsins úr íbúðinni á þann veg að lög­regl­an hafi verið löngu búin að gera hús­leit áður en mynd­bandið var tekið upp.

Hann seg­ir að íbúðin sé ekki sér­út­búið nauðgun­ar­greni. Það að eiga hluti sem tengj­ast bdsm sé ekki refsi­vert. „Það ger­ir hí­býli fólks ekki að hús­næði út­búnu til nauðgana er það? Önnur hver hús­móðir á Nes­inu á slíka hluti eft­ir 50 shades of grey.“

Hann seg­ir að lög­regla hafi hald­lagt þrjá hluti: „A)Tölvu B) Gamla svipu sem afi hús­ráðanda átti. C) Keðjur af boxpúða kærða. Annað var ekki hald­lagt og íbúðin er að öðru leyti óhreyfð.“

Þau sem deildu í vondum málum

Vilhjálmur segir að sér hafi ekki gefist mikill tími til að skoða einstök ummæli á netinu, á samfélagsmiðlum eða í öðrum miðlum vegna málsins þar sem hann hafi tekið við málinu í gær.

„Þó hef ég séð umtalsverðan fjölda af áframsendum eða „share-uðum“ póstum af samfélagsmiðlunum þar sem einhver fullyrðir upphaflega að umbjóðendur mínir séu nauðgarar, birtir af þeim mynd og birtir nafnið af þeim og síðan er einhver sem að dreifir þessu áfram,“ segir Vilhjálmur.

„Í þessu sambandi við mikilvægt að hafa í huga að upphaflega ærumeiðingin sem ég tel að þetta sé er refsiverið samkvæmt 235. grein almennra hegningarlaga en síðan er það algjörlega sjálfstæð bóta- og refsiábyrgð sem fylgir því að birta slík ummæli og dreifa þeim með einhverjum hætti. Það að taka ummæli sem einhver viðhefur á Facebook-svæði sínu í þessa veru og „share-a“ þeim á eigin síðu eða með öðrum hætti, það er sjálfstæð refsiverð háttsemi.

Segir hann að þau sem hafi deilt þessum ummælum geti verið í vondum málum. „Það er ekkert flóknara en það,“ segir Vilhjálmur. Mun hann kanna stöðu umbjóðanda síns í varðandi þennan þátt málsins.

Þá gætir Vilhjálmur hagsmuna manna vegna eftirmála af frétt Fréttablaðsins, „...í þessum skelfilegu atburðum sem áttu sér stað í gær þegar Íslendingar urðu nánast allir sem einn snælduvitlausir og nokkur þúsund manns ákváðu að taka sér dómsvald og sakfella umbjóðendur mína án dóms og laga,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Segir samræðið hafa verið með samþykki beggja

Vilhjálmur segir að í fyrra tilvikinu viðurkenni umbjóðandi hans að hafa haft samræði við konuna en segi að það hafi verið með samþykki þeirra beggja. Segir hann að í málinu liggi fyrir gögn sem sýni fram á að umbjóðandi hans og konan sem kærði hann fyrir kynferðisbrot hafi átt í góðum samskiptum í gegnum Facebook í tæpan mánuð eftir að kynmökin áttu sér stað. Telur Vilhjálmur af og frá að eitthvað refsivert hafi átt sér stað.

Í seinna málinu er um að ræða aðra konu og segir Vilhjálmur að sakarefnið virðist vera töluvert óljóst. Eftir því sem hann komist næst mun konan hafa í örstutta stund haft munnmök við annan manninn og voru þau að því er hún segir samkvæmt skipun hins. Segir Vilhjálmur að menninrnir hafni báðir atvikalýsingunni.

Þá beri atvik morguninn eftir, sem Vilhjálmur segir fólkið sammála um, þess merki að allt hafi verið góðu lagi. Fólkið hafi snætt saman morgunmat, konan hafi brotið hæl á skó sínum um kvöldið og farið út í skóm og bol og öðrum þeirra sem ákærður er í málinu. „Þetta er í engu samræmi við svakalegar lýsingar Fréttablaðsins,“ segir Vilhjálmur.

Aðspurður um samskipti umbjóðanda Vilhjálms og annarrar konunnar sem vísað er til hér að ofan og hvort skilaboðin sem fóru þeim á milli hafi gefið til kynna að samræðið hafi verið með hennar vilja segir Vilhjálmur að það komi ekki beint fram í gögnunum, Facebook-samskiptunum. Hins vegar hefjist samskiptin nokkrum klukkustundum eftir að samræði þeirra á sér stað og konan hafi átt frumkvæði að samskiptunum.  

Frá mótmælum við lögreglustöðina í gær.
Frá mótmælum við lögreglustöðina í gær. mbl.is/Árni Sæberg
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, voru báðar viðstaddar mótmælin lengi framan af. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert