Verkefni sem varð að leysa

Hvalur 6 og 7 mara í hálfu kafi eftir að …
Hvalur 6 og 7 mara í hálfu kafi eftir að þeim hafði verið sökkt við bryggjuna. Fyrir aftan má m.a. sjá Grindvíking GK. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Búist er við að fjótlega verði dælur á Ægisgarði ræstar og hafist verði handa á nýjan leik við að reyna að ná Perlunni upp úr sjónum. Dimma haustdaga fyrir 29 árum stóðu menn í sömu sporum á sömu bryggju, aðeins nokkrum tugum metra vestar. Tveimur bátum Hvals hf. hafði verið sökkt 9. nóvember og lýstu samtökin Sea Shepherd ábyrgðinni á hendur sér.

Kristbjörn Þórarinsson og hans menn hjá Köfunarstöðinni tóku að sér að koma bátunum á flot og tókst það á rúmri viku í nóvember 1986.

Kraftmiklar dælurnar þurftu sérstaka rafstöð

„Þetta var verkefni sem varð að leysa,“ rifjar Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., upp. „Kristbjörn kafari og hans menn voru hörkukarlar, sem og okkar menn og fleiri sem komu að þessu.

Lykillinn að því að þetta tókst voru öflugar dælur sem Kristbjörn fékk frá Landsvirkjun. Hann hafði unnið mikið fyrir hana á hálendinu og víðar og vissi af dælunum. Þær voru svo kraftmiklar að það þurfti að setja upp sérstaka rafstöð á bryggjunni því kaplarnir sem þar voru fyrir þoldu ekki álagið. Þetta var mikil aðgerð, en þeim tókst þetta körlunum.“

Talsverður viðbúnaður var við að ná skipunum upp og meðal annars var prammi með stórum krana fluttur að Ægisgarði.

Kristján segir að Hvalur hf. hafi verið tryggður hjá norsku tryggingafélagi, Hvalfangerenes Assuranceforening í Sandefjord, en Norðmenn ráku öflugan hvalveiðiflota langt fram eftir síðustu öld. Í tryggingaskilmálum var klausa um tryggingu gegn skemmdarverkum.

Tryggingafélagið fékk sérfræðinga frá Englandi til að meta aðstæður. Verkið var síðan boðið út og Kristbjörn og Köfunarstöðin buðu lægst í verkið. Fram kemur í Morgunblaðinu 13. nóvember 1986 að Köfunarstöðin hafi boðið 1,1 milljón í verkið á gengi þess tíma.

„Fyrst var botnlokum lokað og síðan fóru kafarar í að þétta skipin; sett var fyrir brotin kýraugu, hurðir hertar og loftgötum lokað,“ segir Kristján. „Brúin á hvalbátunum stóð að mestu upp úr, ólíkt því sem er með Perluna, sem er á meira dýpi. Það var reyndar nýbúið að dýpka við Ægisgarðinn, en dýpkunarskipið hafði ekki komist að þar sem bátarnir lágu.

Byrjað var að dæla á stórstraumsfjöru, minnir mig, en það var sama hvað þeir dældu úr skipunum það lak alltaf inn í þau að framan. Þá kom í ljós að láðst hafði að þétta loftrör sem lágu í svokallaða snellukjallara frammi í skipunum. Þegar þessu hafði verið lokað tókst að ná þeim upp.“

Hvalbátunum Hval 6 og Hval 7 hefur verið komið fyrir …
Hvalbátunum Hval 6 og Hval 7 hefur verið komið fyrir í fjörunni í Hvalfirði þar sem þeir verða geymdir. Þeim var fleytt upp í fjöru á háflóði, tryggilega festir og tengdir rafmagni og hitaveitu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gufuvélarnar stóðu fyrir sínu

Skipin voru löðrandi í olíu að innan og utan þegar þau náðust upp aðfaranótt 18. nóvember og var þegar farið í að hreinsa og þurrka upp vélarrúm, lestar og annars staðar neðan þilja. Rafleiðslur, innréttingar og ýmis tæki voru ónýt. Gamlar gufuvélar stóðu hins vegar fyrir sínu, en skipin voru smíðuð í Englandi 1945 og 46. Skömmu eftir að skipin náðust upp tókst að gangsetja vélarnar.

„Um leið og skipin komu upp var farið í að kynda katlana og ræsa gufuvélarnar,“ segir Kristján. „Það tók ekki langan tíma að ná upp dampi og fá vélarnar í gang. Það skipti öllu máli að gera þetta sem fyrst til að koma í veg fyrir að vélarnar ryðguðu og síðan var þetta allt opnað, þurrkað og smurt inn aftur.

Tryggingarnar borguðu þennan brúsa við að ná skipunum upp. Þær hefðu líka greitt fyrir að gera upp íbúðir, endurnýja rafmagn og tæki og annað sem skemmdist. Við höfum hins vegar ekki þurft á skipunum að halda og því var samið um greiðslu á ákveðinni upphæð upp í þennan kostnað.“

Hvalur 8 og 9 höfðu verið að veiðum um sumarið. Þegar kom fram í nóvember var annar þeirra í slipp, en hinn lá við Ægisgarð, þar sem Perlan situr núna. Hvalur 6 og 7 voru eldri skip og höfðu ekki verið notaðir sumarið 1986 og hafa reyndar ekki farið til hvalveiða síðan.

Í Hvalfirði síðustu árin

„Hvalur 6 og 7, voru fluttir upp í Hvalfjörð seinni partinn í ágúst 2011 og liggja skammt frá Hvalstöðinni. Þarna var stutt niður á klöpp og eftir smávegis lagfæringar fengum við Magna til að draga bátana uppeftir á stórstraumsflóði. Þar var þeim lagt og um 100 tonnum af vatni dælt í hvorn bát. Þeir eru tengdir við hitaveitu og rafmagn og standa þarna stöðugir á klöppinni,“ segir Kristján Loftsson.

Þegar hvalbátarnir voru fluttir í Hvalfjörð höfðu þeir legið við Ægisgarð í um aldarfjórðung.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka