Voru flugkennarar við skólann

mbl.is

Mennirnir tveir, sem létust þegar flugvél brotlenti suður af Hafnarfirði í dag, störfuðu báðir sem flugkennarar við Flugskóla Íslands. Þetta er staðfest í yfirlýsingu flugskólans til fjölmiðla vegna slyssins. Ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um hina látnu að svo stöddu.

„Um er að ræða hörmulegt slys og Flugskólinn vottar aðstandendum mannanna sem létust sína dýpstu samúð. Kennarar og nemendur Flugskóla Íslands, sem og Tækniskólans sem flugskólinn tilheyrir, hafa verið látnir vita og þeim boðin áfallahjálp. Tekin hefur verið ákvörðun um að fella niður allt skólastarf á morgun vegna þessa, bæði í Flugskóla Íslands og Tækniskólanum,“ segir ennfremur.

Þá segir að um sé að ræða Tecnam-kennsluflugvél en skólinn hafi tekið fimm nýjar slíkar vélar í notkun í sumar og haust. „Flugskólinn mun veita Rannsóknarnefnd Samgönguslysa alla mögulega aðstoð svo að upplýsa megi um orsakir slyssins,“ segir að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert