„Eftir að kærastinn minn nauðgaði mér...“

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fjölmargar konur og stúlkur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi hafa lýst reynslu sinni á lokaða Facebook hópnum Beauty Tips í dag. Nota þær flestar myllumerkið #eftirkynferðisofbeldi eða #daginneftir en umræðan hófst eftir að Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur og baráttukona birti færslu í hópnum. Þar minnti hún aðra meðlimi á að það væru ekki til nein „rétt viðbrögð“ við kynferðisofbeldi.

„Sumt sem maður gerir eftir á kann að virðast órökrétt, enda er ofbeldi í alla staði órökrétt upplifun. Sjálf hélt ég áfram að mæta í skólann þótt brotamaður minn væri samnemandi minn. Það afsannar ekki að hann beitti mig ofbeldi. Fordæmum ekki viðbrögð annarra, né notum þau gegn þeim. Sýnum skilning. #eftirkynferðisofbeldi,“ skrifaði Þórdís Elva. 

Gat ekki kært leigubílstjórann

Aðrir meðlimir Beauty Tips voru ekki lengi að grípa boltann og segja sínar reynslusögur.

Ein segir frá því að maður sem braut á henni hefði eftir á farið með hana og hund sinn í göngutúr.

„Hann skipađi mér ađ fara heim í kvöldmat og hitta mig síđan aftur. Fór svo međ mig og hundinn sinn í göngutúr. Mér leiđ eins og ég væri andlega í alveg jafn miklu beisli og hundurinn hans.“ 

Önnur lýsir viðbrögðum sínum eftir að hafa verið nauðgað af leigubílstjóra. 

„Eftir að leigubílstjórinn hafði nauðgað mér neitaði hann að taka greiðslu fyrir bílinn. Mér leið eins og ég hefði gert eitthvað af mér. Mér leið eins og hefði þegið greiðslu fyrir kynlíf. Ég gat ekki kært hann, því þá kæmi í ljós hvað ég hefði verið ógeðsleg.“

Lágu í „kúri“ eftir nauðgun

Ein lýsir því hvernig henni leið eftir að henni var nauðgað af kærasta sínum. „Eftir að kærastinn minn nauðgaði mér lagðist hann við hliðina à mér með höndina utanum mig og hélt áfram að sofa. Ég lá lömuð alla nóttina og reyndi mitt besta að æla ekki svo hann mundi ekki vakna. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að færa höndina hans. Þannig að við lágum bara ì "kùri" eins og sumir vilja meina um nóttina. Morguninn eftir þóttist ég vera sofandi þegar hann fór og kyssti mig à höfuðið.

Enn önnur lýsir því hvernig hún henti öllu í þvottavél eftir að hún vaknaði eftir nauðgun.

„Vaknaði morguninn eftir.

Blóð í koddanum, blóð í lakinu.
Kúla á hausnum og blóð í hársverðinum.
Eymsli og marblettir.
Mikil afneitun.
Henti öllu í þvott.
"Hlýtur að vera að ég hafi samþykkt þetta áður en ég dó áfengis-og eiturlyfjadauða"

Ég veit ekki ennþá hver þetta var.“

Fann fyrir hendi í náttbuxunum um miðja nótt

Það er ljóst að margir meðlimir hópsins hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi þar sem reynslusögurnar eru fjölmargar. Gerendurnir eru kærastar, feður, frændur, vinir en líka ókunnugir.

„Ég var 9 ára í pössun hjá pabba litlu systur minnar. Við sváfum yfirleitt í herberginu hans og hann í stofunni. Þessa nótt svaf hann ekki þar. Ég vaknaði um miðja nótt og fann fyrir hendi í náttbuxunum mínum. Ég þóttist vera sofandi, ég skildi ekki hvað væri að gerast og var hrædd. Fyrst notaði hann höndina svo fór hann alla leið. Ég var í miðjunni og systir mín hliðin á mér,“ skrifar einn meðlimur Beauty Tips.

„Næsta morgun sagði ég ekki neitt nema að ég vildi fara heim. Ég sagði heldur ekki neitt við mömmu. Ég fór aldrei til hans aftur, sagði að mér líkaði ekki við hann og að ég væri nógu gömul til að vera ein heima. Ég þagði yfir þessu í fimm ár þar til ég gat ekki meira og brotnaði niður út í mömmu. Hún trúði því að þetta hafi gerst en ekki að hann hafi gert það, það tók tíma. Systir mín var aldrei aftur ein með honum, ég sá til þess. Hún veit ekki hvað hann gerði, hún er of ung til að skilja. Ég kærði en málið var fellt niður. Engin sönnunargögn. 
Í dag, 9 árum seinna er ég enn að finna fyrir afleiðingunum. Kvíðaröskun, þunglyndi, félagskvíði, sjálfsmorðtilraunir o.s.fr.“

Fjölmargir notendur Twitter hafa einnig notað myllumerkið #daginneftir og #eftirkynferðisofbeldi. Aðeins eru nokkrir mánuðir síðan að myllumerkið #þöggun hóf göngu sína, fyrst á Beauty Tips en síðan á öðrum miðlum. Mörg hundruð manns lýstu með myllumerkinu upplifunum sínum og reynslusögum af kynferðisofbeldi.

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir
Einni konu var nauðgað af leigubílsstjóra. Eftir nauðgunina neitaði hann …
Einni konu var nauðgað af leigubílsstjóra. Eftir nauðgunina neitaði hann að taka greiðslu fyrir farið. mbl.is/Jim Smart
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert