Vettvangsrannsókn á slyssað þar sem lítil kennsluflugvél frá Flugskóla Íslands brotlenti í hrauni sunnan Hafnarfjarðar stendur enn yfir og verða rannsakendur að störfum fram í myrkur. Ekki liggur fyrir hvenær vélin verður flutt úr hrauninu.
Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is að ekki sé mikið hægt að segja um vettvangsrannsóknina á þessu stigi málsins. Hann gerir ráð fyrir að lögregla og rannsóknarnefnd samgönguslysa verði einnig að störfum á vettvangi á morgun, laugardag. Lík mannanna voru flutt af vettvangi í gær.
Tilkynning barst klukkan 15.10 í gær um að saknað væri tveggja sæta kennsluflugvélar frá Reykjavíkurflugvelli. Fjölmennt lið björgunarsveita, lögreglu, slökkviliðs og Landhelgisgæslu var sent á vettvang og svipast var um eftir vélinni úr lofti. Fannst hún tæpum hálftíma síðar, nokkra kílómetra suðvestur af Hafnarfirði. Slysið varð skammt frá Krýsuvíkurvegi. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti björgunarsveitarmenn og rannsóknarmenn að flakinu.