„Ef þú ert með typpi færðu einn fermetra í viðbót“

Hagaskóli kom sá og sigraði Skrekk í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi með vægast sagt mögnuðu atriði sem nú fer sigurför um samfélagsmiðlana.

Atriðið er feminískur ljóða- og dansgjörningur og alfarið fluttur af stúlkum úr skólanum af mikilli innlifun. Textinn hefst á orðunum „Ég var tíu ára þegar ég var fyrst kölluð hóra, þá skildi ég ekki af hverju, núna skil ég.“

Í textanum er farið um víðan völl innan þess breiða vettvangs sem undirokun kvenna er. Rætt er um útlitsstaðla samfélagsins, klæðaburðarviðmið Samfés og nauðgunarmenningu. 

Atriðið og textann í heild sinni má sjá hér að neðan en hann birtist fyrst á knuz.is.

Svo stolt af Elsku Stelpum Hagaskóla með mikilvæg skilaboð í mögnuðu atriði! Til hamingju Katla og allar hinar!!

Posted by Sunna Snædal on Monday, November 16, 2015

Elsku stelpur

Ég var tíu ára þegar ég var fyrst kölluð hóra
Þá skildi ég ekki af hverju, núna skil ég

Ég var fyrir, ég var stjórnsöm,
fór yfir mörkin og reyndi að brjóta boxið,
en ég var lítil og ég var stelpa.

Elsku stelpur,
ekki fara ykkur að voða.
Ekki taka í burtu plássið sem er frátekið af strákum,
því ef þú ert með typpi færðu einn fermeter í viðbót
ekki krefjast þess að þið séuð virtar, þið eigið minna skilið.

Klæddu þig eins og ég vil hafa þig
haltu þig í þínu horni
málaðu þig meira, málaðu þig minna
málaðu þig minni.

Klæðaburðarviðmið Samfés:
Númer eitt: Ef klæðast á kjól eða pilsi sem nær EKKI niður fyrir hné skal klæðast lituðum sokkabuxum eða leggings.

Vegna þess að leggir á fimmtán ára stelpum gefa of mikið í skyn.

Númer tvö: Varast skal að klæðast of flegnum bolum eða kjólum.

Vegna þess að húðin á fimmtán ára stelpum gefur of mikið í skyn.

Æstu þig, æstu þig, æstu þig
Þú ert umkringd af óréttlæti og ættir helst að öskra.

—LE DROP–

Róaðu þig niður, ekki hafa svona hátt
ertu ekki bara að byrja á túr?
Passaðu þig! Þú hræðir strákana í burtu,
þú talar allt of mikið.

Hættu þessu, þú veist betur
“þú hefur ekkert alltaf rétt fyrir þér”
Vertu kurteis, ekki vera vandró
ekki koma mér í óþægilega stöðu,
ekki fokking blóta!

Vertu skynsöm vertu dugleg,
tíndu upp draslið sem aðrir skilja eftir,
týndu þér.
Gleymdu hvaða máli þú skiptir,
láttu þig hverfa.

Vertu sæt, vertu sexý,
ekki fara samt yfir strikið.
Þú veist hvað gerist
ef þú sýnir aðeins of mikið.

og í guðana bænum ekki senda honum ‘myndir’
Því þú, þín brjóst, þinn líkami og allt sem þú ert
er skítugt og ljótt og bannað
og ekki til að deila með öðrum
og þú mátt ekki eiga það sjálf

— LE 2nd DROP —

Elsku feðraveldi,
veistu, þegar þú segir mér að róa mig
og halda bara kjafti,
hveturu mig áfram
til að öskra af öllu afli
þú getur ekki stoppað það sem þú veist að er að koma
þú skilur ekki erfiðið, þú ert ekki kona.

Þið horfið upp á sviðið og sjáið ekki stráka
og einhverjir hugsa “hvar er jafnréttið í þessu?”
en við viljum vita hvar er jafnréttið í öllu?
Hvar eru konur í heiminum yfir höfuð?
Það eru konur hérna, á þessu sviði, núna,
en sumir þurfa alltaf að skima eftir strákum

Við höfum barist svo lengi
fyrir ótal sjálfsögðum hlutum
að baráttan í sjálfu sér
er orðin sjálfsagður hlutur.
En við biðjum ykkur stelpur,
að halda alltaf áfram,
að gleyma ekki skiltunum
sem stóðu upp úr göngum
að gleyma aldrei konunum
sem hrópuðu í myrkri
að gleyma síst öllum stelpunum
sem voru dónar og tíkur og fyrir.

Stelpur krefjast athygli
ekki reyna að hunsa okkur.
Stelpur krefjast tækifæra
ekki reyna að hindra okkur
Stelpur krefjast virðingar
ekki reyna að stoppa okkur.
Stelpur krefjumst jafnréttis
látum ekkert stoppa okkur!

Eini liturinn á sviðinu birtist í rauðum sokkum stúlknanna.
Eini liturinn á sviðinu birtist í rauðum sokkum stúlknanna. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert