Gert er ráð fyrir því að það taki nokkra daga að hreinsa og dæla olíu úr sanddæluskipinu Perlu sem sökk í Reykjavíkurhöfn fyrir tveimur vikum. Skipið lá á botni Reykjavíkurhafnar þar til í gær en þá náðist það á flot.
Jóhann Garðar Jóhannsson, útgerðarstjóri Björgunar, segir aðgerðina í gær hafa gengið vel. „Nú ertverið að dæla olíu úr aftur- og framvélarrými. Það er mikið verk að hreinsa skipið,“ segir Jóhann og bætir við að engin olíumengun hafi orðið vegna skipsins.
Hann segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvað gert verði við Perlu en sú ákvörðun er í höndum tryggingafélags útgerðarinnar. Ekki hefur heldur verið tekin ákvörðun um að skipið verði flutt úr höfninni.
Eins og kemur fram í Morgunblaðinu í dag er lögregla og Rannsóknarnefnd samgönguslysa með Perlu til rannsóknar. Leitað verður að orsökum óhappsins þegar skipið sökk.