Tappa af skömminni

Hópurinn hóf gönguna hjá Hörpu.
Hópurinn hóf gönguna hjá Hörpu. mbl.is/Árni Sæberg

Fatlaðar konur á vegum Tabú og Kvennahreyfingar Öryrkjabandalags Íslands afhentu innanríkisráðherra, velferðarráðherra og Alþingi kröfuskjöl í dag. 

Freyja Haraldsdóttir, annar forsprakka Tabú, segir tilefnið m.a. meint kynferðisbrot á Nýja-Bæ sem aldrei fóru fyrir dómstóla, rannsóknir sem liggja fyrir um háa tíðni ofbeldis gagnvart fötluðum konum og brotalamir réttarkerfisins sem og reynslu fatlaðra kvenna af margþættri mismunun og ofbeldi í íslensku samfélagi. 

„Kveikjan að þessu eru þær hugrökku konur sem stigu fram og lýstu reynslu sinni af Nýja bæ. Okkur fannst við ekki geta verið til án þess að sýna þeim samstöðu og að þær væru ekki einar,“ segir Freyja og minnir á myllumerkið #égerekkiein sem hópurinn notar til að vekja athygli á málstaðnum. 

„Við viljum skila skömminni, bæði við sem vorum hérna í dag en líka fyrir þær sem gátu ekki verið hérna því fatlaðar konur geta líka illa mótmælt. Þær hafa t.d. ekki aðstöðu til þess því þær þurfa meiri fyrirvara, þær eru hræddar við að mótmælin leiði til þess að þeim verði refsað inni í þjónustukerfinu o.s.frv.“

Hópurinn segir Alþingi hafa stuðlað að kerfisbundinni niðurlægingu sinni.
Hópurinn segir Alþingi hafa stuðlað að kerfisbundinni niðurlægingu sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Ofbeldi þrífst í aðgreiningu

Aðstoðarmaður innanríkisráðherra tók á móti hópnum. Eygló Harðardóttir tók sjálf á móti hópnum í velferðarráðuneytinu og Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, tók á móti þeim í Alþingishúsinu.

 „Ég get kannski ekki talað fyrir okkur allar en allavega upplifði ég að skilaboðin hefðu komist ágætlega til skila,“ segir Freyja.

„Við leggjum fram ólíkar kröfur til ólíkra aðila og hugsunin á bak við það er að sýna fram á að ábyrgðin liggur víða.“

Nefnir hún sem dæmi að innanríkisráðherra beri ábyrgð á réttarkerfinu og aðgengi fatlaðs fólks að því og að velferðarráðherra beri ábyrgð á þjónustu við fatlaða. Beindi hópurinn því sérstaklega til Eyglóar að hún tæki mál Nýja bæjar fyrir. 

„Okkar helsta ábending til hennar er að ofbeldi þrífst best í aðgreiningu og þar sem fatlað fólk er einangrað og þjónustan er í raun og veru þannig í dag. Við þurfum að fá þjónustu sem styður okkur úti í samfélaginu og til þátttöku.“

Kröfur hópsins gagnvart Alþingi snúa að aðhaldi þess við vinnu ráðherra sem og að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

„Í grunninn er þetta líka bara krafan um það að það sé haft samráð við fatlað fólk þegar mál þess eru rædd og teknar eru ákvarðanir um þau. Að við séum ráðin til starfa sem sérfræðingar af því að við þekkjum best okkar veruleika, að við eigum sæti við borðið þegar stefnur eru markaðar.“

 Hægt er að kynna sér allar kröfur hópsins á tabu.is

Hópurinn fór fyrst í innanríkisráðuneytið.
Hópurinn fór fyrst í innanríkisráðuneytið. mbl.is/Árni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka