Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir ákvæði skorta svo hægt sé að taka á hefndarklámi, huga þurfi að aðstæðum fatlaðra við skýrslutökur í sakamálum og skýra þurfi hlutverk réttargæslumanna.
Hún stendur við ákvörðun sína um að takmarka aðgang fjölmiðla að upplýsingum um kynferðisbrot sem kunni að koma upp á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Þá leggur hún áherslu á þann sterka grun sem þarf að liggja fyrir svo hægt sé að útskurða menn í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna.
Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Páleyjar á málþingi Orator, félagi laganema við Háskóla Íslands, í hádeginu í dag en það bar yfirskriftina Þarf breytt lagaumhverfi í kynferðisbrotamálum?
Páley vék fyrst að almennum hegningarlögum og þeim breytingum sem hún telur að gera þurfi á þeim, þ.e. er varðar kynferðisbrot. Sagði hún að endurskoða þurfi lagaákvæði er snúa að barna- og hefndarklámi vegna breyttra aðstæðna í samfélaginu.
„Við erum komin með ný brot, þ.e. hefndarklám sem fylgja aukinni netvæðingu, þar sem fólk er tekið upp í kynferðislegum athöfnum eða sýnt á kynferðislegan hátt, stundum óafvitandi og því dreift til annarra,“ sagði Páley. Ákvæði vanti svo hægt sé að taka á þessari nýju gerð mála. „Að mínu mati þarf löggjöfin okkar að ná yfir þennan verknað, þarna þurfum við að taka til hendinni,“ sagði hún.
Sagði hún þær breytingar sem gerðar hafa verið á ákvæðum almennra hegningarlaga síðustu ár, þá sérstaklega þeim ákvæðum er snúa að kynferðisbrotum, hafi tekist vel til, þær hafi verið yfirvegaðar og standist tímans tönn. Vandinn snúi aftur á móti aðallega að sönnunarbyrði í málum.
„Ég held að við getum bætt aðstöðu brotaþola mikið með því að líta fyrst til veikasta hópsins, þeirra sem eru fatlaðir og hins vegar að líta til ákvæða um réttargæslumenn,“ sagði Páley.
„Það er venja að við tökum skýrslu af þeim [fötluðum – innskot blaðamanns] á rannsóknarstigi fyrir dómi. Það er ekkert sérstakt ákvæði í sakamálalögum um hvernig fara eigi með fatlaða og hvernig aðstöðu þeir eiga að hafa,“ bætti Páley við. Nefndi hún sem dæmi að tekin er skýrslu af börnum í Barnahúsi þegar grunur leikur á að brotið hafi verið gegn þeim.
„Þeir [fatlaðir – innskot blaðamanns] eru oft verulega greindarskertir og eins og lítil börn og þurfa jafnvel séraðstöðu. Reynsla lögreglunnar síðustu misseri er að það sé oft nauðsynlegt að hafa með þeim sérfróðan aðila sem þekkir þeirra fötlun og getur verið þeim til halds og trausts í skýrslutökunni,“ sagði Páley.
Benti hún á að reynt hefði á þetta á rannsóknarstigi mála. Sagði hún að fatlaðir eigi oft erfitt með að treysta, til að mynda þeir sem glíma við einhverfu og þá geti verið erfitt að fá þá til að segja sögu sína. Þá svari viðkomandi jafnvel heldur ekki alltaf spurningum. „Þá hefur verið mikilvægt að hafa sérfróðan aðila í skýrslutökunni þeim til halds og trausts,“ sagði Páley.
Sagðist hún telja að þarna væri hægt að gera betur, jafnvel bjóða fötluðum upp á sérútbúða aðstöðu líkt og börnum er boðið upp á Barnahús. Sagði hún skort á ákvæðum um stuðning í skýrslutöku, sérútbúna aðstoð og sérþjálfaða fyrirspyrjendur.
„Það er auðvitað mikill munur á hlutverki réttargæslumanna og verjenda og hann verður að vera, eðlilega, en við getum bætt aðstöðu þolenda með því að skýra hlutverk réttargæslumanna,“ sagði Páley.
„Ég hef upplifað það sem réttargæslumaður barns í kynferðisbroti að vera með mjög takmarkaðan aðgang að gögnum og lenda í því, fyrir tilviljun löngu eftir að dómur er fallinn í málinu, að komast að gögnum, myndamöppu, sem var hluti af tæknirannsókn lögreglu þar sem ungar stúlkur voru sýndar á kynferðislegan hátt,“ sagði hún.
Ekki var ákært fyrir vörslu barnakláms í málinu og því var mappan ekki lögð fram við þingfestingu málsins. „Þegar ég sé þessa möppu löngu síðar rennur upp grunur að þarna sé mynd af barninu,“ bætti Páley við og þurfti því að rannsaka málið á ný. Sagði hún að hægt hefði verið að koma í veg fyrir þetta ef réttargæslumaður hefði fengið aðgang að gögnunum á rannsóknarstigi.
Páley sagði marga dómara líta svo á að meginverkefni réttargæslumanna sé að leggja fram bótakröfu þolanda í málinu. Aðalverkefnið sé aftur á móti að gæta hagsmuna skjólstæðingsins og veita honum aðstoð í málinu. Benti hún einnig á að réttargæslumenn hefðu takmarkan möguleika á málflutningi fyrir dómi.
„Réttargæslumaður má aðeins tjá sig munnlega fyrir dómi um einkaréttarkröfur. Þarna er kannski rótin að því hvernig dómarar líta á hlutverk réttargæslumanna,“ sagði Páley og sagðist halda að það væri nær að nýta þá sérfræðiþekkingu sem réttargæslumennirnir hafi í þessum málum. Hægt sé að nota þá betur og leyfa þeim að vera þátttakendur í þinghaldinu.
„Reynsla mín af því að vera réttargæslumaður til átta ára er að dómarar skilja ekki alltaf hlutverk réttargæslumanna og í hverju það felst,“ sagði Páley. Líf þeirra sem verði fyrir kynferðisbroti fari jafnan einfaldlega á hliðina og vakni margar spurningar um málið, rannsóknina, réttarfarið, réttindi og fleira.
Sagði hún að fólk þurfi að geta reitt sig á réttargæslumanninn og treyst því að hann hafi allar upplýsingarnar í málinu sem þörf er á. „Það er ekki þolandi að það sé hálfpartinn gert grín að því að þeir láti eins og sálfræðingar, tímaskýrsla þeirra sé véfengd fyrir dómi og skorið af þóknuninni. Að mínu mati lýsir það vanþekkingu á störfum réttargæslumanna á rannsóknarstigi,“ sagði Páley.
„Ég tel ekki að við þurfum að kollvarpa kaflanum um kynferðisbrotin. Við höfum hins vegar önnur tæki og það er verklag. Við getum bætt okkur með breyttu verklagi,“ sagði Páley.
Sagði hún það heyra sögunni til að þeim sem ætla að kæra kynferðisbrot sé vísað frá og þeir beðnir um að koma daginn eftir á lögreglustöðina. „Þetta hljómar fáranlega en það er ekki mjög langt síðan að þetta var akkúrat svona. Það hefur margt áunnist,“ sagði hún og bætti við að það væri heldur ekki þannig að meintir þolendur þyrftu að bíða frammi á gangi eftir þjónustu.
Sagði hún að hlúa þurfi að brotaþolum eins og hægt er. „Brotaþolarnir eru mjög viðkæmir, viðkvæmari en í flestum öðrum málum. Ég held að við eigum að reyna að létta þeim þessi þungu spor eins og mögulegt er,“ sagði Páley.
Vék hún því næst að tilmælum sínum til viðbragðsaðila sem komu að Þjóðhátíð í ár að gefa fjölmiðlum ekki upplýsingar um kynferðisbrot sem kynnu að koma upp á hátíðinni.
„Eins og frægt er orðið ákvað ég að vernda brotaþola í mínu umdæmi með þeirri ákvörðun breyta verklagi, að afleggja það afleita verklag að tilkynna alltaf í hádeginu dag hvern um öll tilkynnt kynferðisbrot til lögreglunnar. Þetta var verklag sem hafði verið við lýði um margra ára skeið, setja þetta fram í fréttatilkynningu. Þetta er þessi eina helgi á árinu, eina umdæmið. Ég er algjörlega sannfærð um að það sé hárrétt að sleppa þessu,“ sagði Páley.
Sagði hún ástæðuna fyrir verndandi umhverfi fyrir brotaþola tvíþætt, annars vegar rannsóknarhagsmunir og hins vegar hagsmunir brotaþola. Þessi atriði séu samstillt á fyrstu stigum málsins. Þolandinn þurfi að koma til lögreglu, tilkynna og greina frá málinu. Sé hann ekki í ástandi til þess er ekki hægt að hefja rannsókn málsins.
„Við þurfum að halda honum í eins góðu jafnvægi og við mögulega getum. Málið lak í fjölmiðla, brotaþoli vorkenndi gerandanum mjög mikið enda var þetta vinur hennar og góður strákur,“ sagði Páley og bætti við að brotaþoli hefði í kjölfarið hætt við að leggja fram kæru í málinu.
„Þetta eru rannsóknarhagsmunirnir sem við erum sífellt að hugsa um og þurfum að fá aðstöðu til þess að tryggja. Þetta er dæmi um það sem getur gerst ef rannsóknin fer í loftið of snemma,“ sagði hún og bætti við að lögregla þyrfti ákveðinn frið við rannsókn mála.
Þolanda væri í sjálfsvald sett hvenær hann greindi fjölmiðlum frá málum sem þessum en ekki væri eðlilegt að hennar mati að upplýsingarnar kæmu frá lögrelgu. „Ég vildi óska þess að fleiri stéttir líti svo á, þetta eru aðilar sem eru bundnir þagnarskyldu að lögum,“ sagði Páley.
Margir gagnrýndu lögreglu harðlega fyrir að hafa ekki farið fram á gæsluvarðhald yfir tveimur karlmönnum sem kærðir voru fyrir meint kynferðisbrot í síðasta mánuði. Sagði Páley mikilvægt að gera skýran greinarmun á gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna og á grundvelli almannahagsmuna.
„Það er stjórnarskrárvarinn réttur manna að vera ekki sviptur frelsi nema með lögum. Lögrelga hefur heimild til að halda grunuðum í sólarhring og er það í flestum tilvikum nýtt í kynferðisbrotamálum,“ sagði Páley. Stundum væri sólarhringurinn fullnægjandi tími en ef svo væri ekki væri stundum farið fram á gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Ef aftur á móti eigi að útskurða í fangelsi á grundvelli almannahagsmuna þurfi sterkan grun um brot er varði tíu ára fangelsi. Gæsluvarðhald sé þungbærasta þvingunarráðstöfunin og þurfi að íhuga það vandlega. „Þú ert að setja mann í fangelsi sem hefur ekki fengið efnisdóm í málinu, þess vegna er krafan um þennan sterka grun,“ sagði Páley.
„Þetta er spurning um réttarríkið okkar og við megum ekki hleypa umræðunni út í það að vera að gefa einhvern afslátt af því, afslátt af sönnunarkröfu eða mannréttindum sakbornings. Meginreglan um að maður er saklaus þangað til sekt hans er sönnuð er þýðingarmesta regla réttarríkisins,“ sagði hún einnig.
Í lokin vék Páley að niðurstöðum rannsóknar þeirra Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur og Hildu Fjólu Antonsdóttur sem gerð var árið 2013 um einkenni og meðferð kynferðisbrotamála. Þar unnu þær með gögn um tilkynningar nauðganir til lögreglu á árunum 2008 til 2009.
Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að marktækur munur var á meðferð málanna hjá Ríkissaksóknara eftir því hvenær málin bárust lögreglu. Af 88 málum sem send voru til saksóknara barst helmingur þeirra lögreglu samdægurs og var ákært í tæplega helmingi þeirra tilvika. Aftur á móti var ákært í 24,5% tilvika þegar tilkynning barst síðar til lögreglu.
Benti Páley á að möguleikar lögreglu á að afla sönnunargagna séu augljóslega mestir skömmu eftir að brot er framið en þá er meðal annars hægt að bjóða meintum þolanda upp á læknisskoðun, tryggja vettvanginn og kanna framburð vitna .
Sagði hún þolendum sem leita fljótt aðstoðar lögreglu og fá viðeigandi aðstoð sem fyrst reiða betur af. Því sé lykilatriði að fólk leiti til lögreglu sem fyrst eftir brot og lauk Páley máli sínu á því að greina frá þeirri skoðun sinni að mikilvægt sé að fara í herferð til að tryggja að þolendur leiti strax aðstoðar.