Útgerðarstjóri Björgunar telur ekki útlit fyrir að hægt verði að nota dæluskipið Perlu aftur.
Skipið náðist í fyrrakvöld af botni Gömlu hafnarinnar í Reykjavík þar sem það hafði legið frá byrjun mánaðarins.
Jóhann Garðar Jóhannsson útgerðarstjóri segir að á þessari stundu sé ekki hægt að segja til um hvað gert verði við skipið að lokinni hreinsun og rannsókn lögreglu. Það sé í höndum tryggingafélags Björgunar, að því er fram kemur í umfjöllun um skipið í Morgunblaðinu í dag.