„Sömu svörin og hann hefur verið með“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Ómar Óskarsson

Svör mennta- og menningarmálaráðherra við spurningum Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, um tengsl ráðherra við fyrirtækið Orku Energy hafa verið birt á Alþingisvefnum en athygli vekur að þau eru heldur stuttaraleg.

Spurningunni um hvaða verkefni ráðherra vann fyrir Orku Energy á árinu 2011 og hvar þau störf voru innt af hendi svarar ráðherrann t.d. aðeins með því að segja að hann hafi unnið ráðgjafarstörf vegna verkefna í Singapúr.

„Þetta eru náttúrulega bara sömu svörin og hann hefur verið með. Ég hef ekkert við það að bæta. En það tók hann skringilega langan frest til þess að svara þessu,“ segir Birgitta í samtali við mbl.is. Spurð að því hvort hún telji svörin fullnægjandi segir hún að á einhverjum tímapunkti þegar búið sé að spyrja fólk ítrekað um sömu hlutina þá sé alveg ljóst að fullnægjandi svör munu ekki berast.

Spurningar þingmanns og svör ráðherra:

1.     Hversu lengi starfaði ráðherra fyrir Orku Energy?
    Líkt og hefur komið fram opinberlega voru störf fyrir Arctic Green Energy (áður Orka Energy) innt af henti árið 2011 yfir nokkurra mánaða skeið og með hléum, ásamt öðrum störfum. Rétt er að árétta að störfin voru innt af hendi áður en ráðherra tók við embætti.

2.     Hvaða verkefni vann ráðherra fyrir Orku Energy á árinu 2011 og hvar voru þau störf innt af hendi?
    Líkt og hefur komið fram opinberlega voru unnin ráðgjafarstörf vegna verkefna í Singapúr.

3.     Á grundvelli hvaða sérþekkingar voru umrædd störf unnin?
    Í ferilskrá ráðherra kemur fram að hann hafi lokið prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands og síðar MBA-námi (Master of Business Administration) frá London Business School.

4.     Hversu mikið var ráðherra greitt fyrir umrædd störf fyrir félagið á árinu 2011?
    Líkt og hefur komið fram opinberlega voru greiddar 5.621.179 kr. fyrir skatt vegna umræddra starfa. Vinnan og launagreiðslan var innt af hendi áður en ráðherra tók við embætti sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert