Björg Valgeirsdóttir, hdl. og eigandi DIKA lögmanna, gagnrýndi kærur fyrir rangar sakargiftir áður en mál hafa verið leidd til lykta, velti fyrir sér hversu langt verjendur megi ganga, bar saman þjófnað og kynferðisbrot með dæmisögu um stolinn iPad og sagði mikilvægt að leitast við að eyða fordómum hjá þeim sem koma að kynferðisbrotamálum á öllum stigum þess á málþingi Orator í gær.
Þetta var meðal þess sem kom fram í erindi hennar á málþinginu sem bar yfirskriftina Þarf breytt lagaumhverfi í kynferðisbrotamálum?
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, flutti einnig erindi en þar sagðist hún meðal annars standa við ákvörðun sína um að takmarka aðgang fjölmiðla að upplýsingum um kynferðisbrot á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Sagðist Björg vera sammála henni en sagðist aftur á móti telja að það sama ætti að ganga yfir öll brot.
Frétt mbl.is: Gefi ekki afslátt af réttarríkinu
„Allir eiga rétt á bestu vörn sem möguleg er hverju sinni. Hlutverk verjanda hefur verið í umræðunni síðustu daga og vikur og þá má velta fyrir sér hversu langt megi ganga,“ sagði Björg. Benti hún á að aðkoma lögmanna að kynferðisbrotamálum væri tvenns konar, annars vegar sem réttargæslumenn brotaþola og hins vegar sem verjendur ákærðu.
Sagðist hún hafa gagnrýnt harðlega að í upphafi rannsóknar leggi lögmenn fram kærur um rangar sakargiftir. Þar vísaði hún í kærur Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, verjanda annars karlmannsins sem kærður var fyrir kynferðisbrot í síðasta mánuði, á hendur tveggja kvenna fyrir rangar sakargiftir.
„Ég tel það einungis til að flækja málið, tefja fyrir rannsókn og jafnvel draga úr þrótti brotaþola sem er mjög alvarlegt og ég spyr mig um leið hvort það sé möguleiki á að vinnubrögð lögmannsins í þessum málum séu hugsanlega skyld einhverjum rótgrónum vanda innan réttarvörslukerfisins,“ sagði Björg. Sagðist hún telja að löng hefð væri fyrir smánun brotaþola nauðgunar í okkar samfélagi.
Fyrr á tímum hafi nauðgun ekki verið brot gegn konunni sjálfri heldur föður hennar eða eiginmanni. Kallað var á verksummerki eftir ofbeldi og væri ekki hægt að sanna slíkt átti konan á hættu að vera dæmd fyrir skírlífsbrot. Þá nefndi Björg einnig að almenn hegningarlög fyrir Ísland frá árinu 1869 hefðu takmarkað fulla refsivernd fyrir konur sem höfðu ekki „óorð“ á sér. Ef því skilyrði var ekki fullnægt átti að beita vægari hegningu.
„Með þetta í huga spyr ég hvort við séum mögulega enn föst í úreltum sjónarmiðum sem eiga ekki skylt við nútímann þegar við erum að vinna með þessi mál, þ.e. rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála. Hvort það eimi eftir því í lögum að einhverskonar smánun í garð brotaþola,“ sagði Björg. Benti hún á að í 194. grein almennra hegningarlaga skipti verknaðaraldur enn mestu máli og sagði að andlegum áverkum sé lítill gaumur gefinn í rannsókn á kynferðisbrotamálum.
Sagðist Björg ekki endilega viss um að þörf væri á að breyta þessu lagaákvæði en sagði að fá mál „færu alla leið“, það er að dómfellt sé á einn eða annan veg. 10% þeirra sem leita til Neyðarmóttöku kæra kynferðisbrot til lögreglu og 13,2% þeirra sem leituðu til Stígamóta árið 2014.
Vísaði hún einnig í skýrslu Hildar Fjólu Antonsdóttur og Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur frá árinu 2012, Einkenni og meðferð nauðgunarmála sem bárust lögreglu á árunum 2008 og 2009. Hætti lögregla rannsókn í 26% mála og vísaði 74% mála áfram til ríkissaksóknara. Þar af felldi ríkissaksóknari niður 65% mála og ákærði í 35% mála. Þar af var fyrir dómi sýknað í 26% mála en sakfellt í 74% mála.
Björg sagði að meðferð kynferðisbrotamála sæti reglulega harðri gagnrýni sem sé oft á þá leið að refsirammi sé ekki nýttur og sönnunarbyrði sé þung, jafnvel að sönnunarfærslur séu rangar. Sagði hún einnig að enn eimi af því viðhorfi að konur kalli yfir sig nauðganir með klæðaburði eða öðru. „Á sú gagnrýni rétt á sér,“ spurði Björg.
Því næst nefndi Björg dæmi um mann sem stelur iPad af heimili konu og vildi hún með því bera saman brotaflokka.
„Kona býður karlmanni heim með sér eftir djammið. Þau eru bæði drukkin og hún býður honum upp á drykk, fer inn í eldhús og maðurinn sest inn í stofu. Þegar hún kemur til baka með drykkinn sér hún að maðurinn er farinn en um leið glænýji iPadinn hennar og hleðslutæki,“ sagði Björg.
„Hún hringir auðvitað í lögregluna og gerir grein fyrir því að þessi maður hafi tekið eignir hennar með sér. Lögreglan mætir á staðinn, tekur af henni stutta skýrslu og fer síðan og ræðir við þennan mann. Maðurinn er með iPadinn, hann finnst á heimili hans en hann segir, hún gaf mér þennan iPad, hvað eruð þið að gera hérna,“ hélt Björg áfram.
„Lögreglan hugsar með sér, nú er orð gegn orði. Hún segir að hann hafi tekið hann iPadinn ófrjálsri hendi, nú þarf bara að ræða aftur við þessa konu. Í þessari dæmisögu ætla ég að biðja ykkur um að velta fyrir ykkur hvort þetta séu raunhæf viðbrögð hjá lögreglunni,“ sagði Björg.
Lögregla: Já, góðan daginn. Takk fyrir að koma. Ég ætlaði að spyrja þig, hvar lá iPadinn þegar hann kom heim til þín?
Konan: Já, hann lá bara á stofuborðinu.
Lögregla: Sem sagt bara á glámbekk?
Konan: Öh, jaaaá. Hugsanlega.
Lögregla: Var hann í hulstri? Í hvernig hulstri var hann?
Konan: Hann var í glæru hulstri.
Lögregla: Já, þannig að hann gat auðveldlega séð að þetta var iPad í góðu standi?
Konan: Já, það má segja það.
Lögregla: Einmitt. Varst þú drukkin?
Konan: Já, ég var drukkin.
Lögregla: Já, akkúrat. Ert þú gjafmild þegar þú ert drukkin? Hann segir að þú hafir gefið honum iPadinn. Varst þú mögulega of drukkin til að muna hvort þú gafst hann eða ekki?
„Hér lýkur dæmisögunni en ég bið ykkur um að dæma hvert fyrir sig hvort þessi gagnrýni eigi rétt á sér miðað við það sem hér kemur á eftir,“ sagði Björg.
Nefndi hún nokkur dæmi, meðal annars atriði úr skýrslu starfshóps Ríkissaksóknara frá árinu 2007 þar sem sagði aðferðir lögreglu við skýrslutöku á rannsóknarstigi: „Í einu máli var vinkona brotaþola spurð hvort brotaþoli ætti það til að vera lauslát undir áhrifum áfengis.“
Vísaði hún aftur í skýrslu Hildar Fjólu og Þorbjargar Sigríðar frá árinu 2013 en þar kom fram að marktækur munur var á afgreiðslu mála þar sem brotaþolar voru undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa þegar brotið var framið en þau mál voru oftar felld niður.
Í sömu skýrslu kom einnig fram að munur var á afgreiðslu mála eftir því hvort brotaþoli lýsti því að hafa streist á móti sakborningi eða hafa veitt þeim líkamlega mótspyrnu. Þeim málum var marktækt oftar vísað til ríkissaksóknara en þegar brotaþoli lýsti engri líkamlegri mótspyrnu, sagði Björg og bætti að að hún teldi augljósan mun á meðferð mála eftir brotaflokkum.
„Varðandi þetta síðasta atriði, þar sem kemur fram að mál séu oftar felld niður á rannsóknarstigi eða eftir rannsókn þegar lítið sést á brotaþola eða jafnvel ekkert, þá nefndi ég að samkvæmt þessu viðbrögðum virðist ekki gefinn gaumur að því sem kallast áfallastjarfi og margir þolendur kynferðisofbeldis hafa lýst, meðal annars mínir umbjóðendur, þar sem viðkomandi fraus og gat ekki sagt neitt, gat ekki sagt neitt vegna þess að hann var hræddur, honum leið illa og lá bara eins og flak undir gerandanum. Aukin þekking segir okkur um leið að andlegir áverkar eru alvarlegustu afleiðingar nauðgana, hlutir eins og áfallastreituröskun, þunglyndi, kvíði og annað,“ sagði Björg.
Því næst nefndi Björg dóm Hæstaréttar sem féll 31. janúar árið 2013 í svokölluðu Hells Angels-máli. Þar var sannað að þrír hefðu ráðist inn á heimili brotaþola og ráðist á hana með því að sparka í höfuð hennar, skera í fingur hennar með hnífi og slá hana með leðurkylfu. Þá stakk einn þeirra fingrum upp í endaþarm og leggöng brotaþola og klemmdi þar á milli.
„Fram er komið að þessi háttsemi þeirra hafði þann tilgang að meiða brotaþola og þegar litið er til atvika málsins telst hún ekki til samræmis eða annarra kynferðismaka í skilningi 1. mgr 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940,“ sagði í dómnum.
„Hér er verið að horfa á hvata að baki verknaði og hvort manninum fannst „sexý“ að gera þetta við konuna. Hvati að baki verknaði, eins og Hæstiréttur horfir hér til, á ekki að hafa nein áhrif við mat á refsinæmi verknaðar. Hann á fyrst og fremst og þá aðeins að koma til við ákvörðun refsingar, komi til refsiþyngingar eða lækkunar,“ sagði Björg.
„Næst spyr ég, með fullri virðingu fyrir lögreglustjóranum [Páleyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum] og varpa þessu út í kosmósinn að lögreglan í Vestmannaeyjum hafi gefið út að ekki yrðu veittar upplýsingar um kynferðisbrot á þjóðhátíð í Vestmanneyjum árið 2015. Það voru mjög misjafnar skoðarnir varðandi þetta atriði, þetta hafði verið venjan áður,“ sagði Björg og velti fyrir sér hvort um tilraun til þöggunar hafi verið að ræða.
„Ég tel það orka vægast samt tvímælis að kæra brotaþola í upphafi rannsóknar þegar ekki hefur verið felldur dómur eða því endanlega lokið. Ég tel að það hafi þau áhrif að fæla frekar einstaklinga í áfelli sem telja sig hafa orðið fyrir broti. Þetta er ekki réttlátt og þið sjáið í þessari skelfilega lágu prósentu sem kærir kynferðisbrot eftir að hafa leitað til Neyðarmóttöku eða Stígamóta,“ sagði Björg.
„Sönnunarbyrðin í þessum málum er mjög þung. Er eðlilegt að það sé nánast ekkert vægi gefið á atburðum sem styðja framburð brotaþola, heldur einblínt á þau atriði sem túlka skuli ákærða í hag,“ spurði hún. „Tilhugsunin um að saklaus manneskja sé dæmd og jafnvel rúin frelsi sínu er mjög ógnvekjandi. En það er á sama tíma ekki síður ógnvekjandi til þess að hugsa að einstaklingur sem framið hefur kynferðisbrot komist upp með það.“
Í lokin velti Björg fyrir sér hvernig draga megi úr vandanum án þess að slaka á sönnunarbyrðinni.
„Mögulega með því að leitast við að eyða fordómum hjá þeim sem að málunum koma á öllum stigum þess. Ég hér við lögreglu, verjendur, réttargæslumenn og svo dómara og forðast mun á milli ólíkra brotaflokka. Ég veit ekki með ykkur en þessi saga sem ég sagði hérna áðan er absúrd en þetta er raunveruleikinn í kynferðisbrotamálum,“ sagði Björg.
„Styrkja mætti verkferla rannsakenda, leggja meiri áherslu á það sem styrkt hefur framburð þolenda kynferðisofbeldis til dæmis með því að notast við sérfræðinga til að leita að sannleikanum, leitast við að gera alla þá sem koma að meðferð kynferðisbrotamála upplýstari með aukinni fræðslu lögreglu og dómara,“ taldi Björg upp.
Var það niðurstaða Bjargar að ekki sé knýjandi þörf á því að breyta ákvæði kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga en aftur á móti þurfi aukna fræðslu til að eyða fordómum, breytt viðhorf og skýrari verkferla.