Sýknaður af nauðgunarákæru

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is

Fjölskipaður dómur Héraðsdóms Suðurlands sýknaði í vikunni karlmann af ákæru um nauðgun tæplega átján ára gamalli stúlku á hótelherbergi á síðasta ári. Í niðurstöðu dómsins er vísað til gáleysisbrots sem ekki sé ekki refsivert í þessu tilviki því uppi sé svo mikill vafi um hvort maðurinn hafi af ásetningi framið þau brot sem hann var ákærður fyrir.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa nauðgað stúlkunni á hótelherbergi eftir árshátíð fyrirtækis sem þau störfuðu bæði hjá snemma á síðasta ári.  Stúlkan krafði manninn einnig um skaðabætur vegna brotsins upp á tvær milljónir króna.

Það var starfsmaður á hótelinu sem hafði samband við lögreglu snemma um morgun en stúlkan hafði leitað til hans. Þegar lögregla kom á staðinn var stúlkan sýnilega í miklu áfalli og átt erfitt með að greina frá atvikum.

Ekki líkamlegir áverkar en hins vegar andlegir áverkar

Hún gaf lögreglu stutta frásögn og kvaðst hafa vaknað við að maðurinn hafi verið að eiga við sig og síðan hafi hann nauðgað sér. Maðurinn neitaði hins vegar sök og sagði að ekki hafi verið um þvingun að ræða. Meðal gagna í málinu voru Facebooksamskipti þeirra um nóttina þar sem hún biður hann um að koma inn á herbergi til sín.

Skoðun kvensjúkadómalæknis leiddi ekki í ljós neina sýnilega líkamlega áverka en stúlkan hafi verið döpur og í tilfinningalegu losti. Í vottorði frá sálfræðingi sem stúlkan hitti í þrígang kemur fram að hún sýni sálræn einkenni sem samsvari einkennum sem þekkt séu hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys og hamfarir. 

Framburður beggja metinn trúverðugur

Mjög bar á milli í vitnisburði brotaþola og hins ákærða en í niðurstöðu héraðsdóms segir að ákærði hafi verið undir óverulegum áhrifum áfengis í umrætt sinn. Hann hafi frá upphafi málsins neitað sök og borið að kynferðisleg samskipti þeirra hafi verið með samþykki og þátttöku brotaþola. Fyrir liggur að brotaþoli hafi verið undir talsverðum áhrifum áfengis og hefur það án efa áhrif á framburð hennar. Þrátt fyrir það var framburður hennar skýr og greinargóður í öllum meginatriðum. Meðal annars greindi brotaþoli nákvæmlega frá orðaskipum þeirra í milli um ástæðu þess að hún vildi ekki hafa samræði við ákærða í greint sinn eins og rakið hefur verið hér að framan. Dómurinn metur framburð beggja trúverðugan í öllum meginatriðum.

Ákærða er gefin að sök nauðgun. Samkvæmt 18. gr. almennra hegningarlaga er verknaður sem refsing er lögð við í hegningarlögum ekki saknæmur nema hann sé unninn af ásetningi eða gáleysi. Enn fremur segir að fyrir gáleysisbrot skuli því aðeins refsa að sérstök heimild sé til þess í lögum. Slík heimild er ekki í 194. gr. almennra hegningarlaga. [Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.
 Það telst einnig nauðgun og varðar sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til þess að hafa við hann samræði eða önnur kynferðismök, eða þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.]

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 61/2007 er áréttaður sá áskilnaður 18. gr. almennra hegningarlaga að ásetningur sé ótvírætt saknæmisskilyrði nauðgunarbrots og sérstaklega tekið fram að ásetningur verði að taka til allra efnisþátta verknaðar eins og honum er lýst í 194. gr. laganna, þ.e. bæði til verknaðaraðferðar og kynmakanna.

Þá er þess getið í athugasemdum við framangreint frumvarpsákvæði að því sé ætlað að ná til þeirra tilvika þar sem kynmök fara fram án samþykkis brotaþola, enda sé það undirliggjandi skilyrði að samþykki skorti til kynmaka. Þá segir í athugasemdunum að þegar ákærði neiti sök sé oft mjög erfitt að sanna huglæga afstöðu hans til verknaðarins og því verði dómstólar þá að meta hvað ákærði hafi hlotið að gera sér grein fyrir, en þannig tvinnist þá oft saman sakarmat og sönnunarmat. Það sé mat ákærða á aðstæðum sem sé lagt til grundvallar við sakarmatið þannig að ekki sé unnt að refsa honum fyrir nauðgun ef hann hefur haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli væri samþykkur kynmökum, þ.e.a.s ekki sé fyrir hendi ásetningur til þess að þvinga brotaþola til kynmaka. 

Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008, er það  ákæruvaldsins að sanna að ákærði hafi með ásetningi brotið gegn brotaþola í umrætt sinni og þannig gerst brotlegur við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Efast um að ásetning hafi verið að ræða

„Að öllu framangreindu virtu, aðstæðum öllum í máli þessu, bæði hvað varðar aðdraganda þess að ákærði sinnti kalli brotaþola um að koma til hennar og í framhaldi af því fylgdi brotaþola inni í hennar herbergi, nánum kynferðislegum samskiptum þeirra í milli með samþykki brotaþola eins og lýst hefur verið hér að framan, þykir að mati dómsins vera uppi slíkur vafi í máli þessu um að ákærði, sem hefur frá upphafi neitað að samræði eða önnur kynmök hafi farið fram gegn vilja brotaþola, hafi af ásetningi framið það brot sem honum er gefið af sök. Með vísan til þess og 109. gr. laga nr. 88/2008, ber því að sýkna ákærða af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu. Með vísan til framangreindrar niðurstöðu er einkaréttarkröfu í máli þessu vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert