Afturvirkni hækkunar kemur á óvart

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir

Það er ekki prósentuhækkunin sem kjararáð ákvað að veita embættismönnum þjóðarinnar sem kemur á óvart heldur hversu langt aftur í tímann hækkanirnar ná, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ. Viðræður sambandsins við SA um lagfæringar á kjörum hljóti að taka mið af ákvörðun kjararáðs.

Kjararáð ákvað að hækka laun embættismanna sem heyra undir ráðið um 9,3% í vikunni. Hækkunin gildir frá 1. mars á þessu ári. Undir kjararáð heyra meðal annars kjör forsetans, forsætisráðherra og annarra ráðherra, þingmanna, dómara, presta þjóðkirkjunnar, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra innan stjórnarráðsins og forstöðumanna ríkisstofnana.

Gylfi segir að eftir niðurstöðu gerðardóms komi ákvörðun kjararáðs ekki á óvart. Þeir sem skipi dóminn og ráðið hafi þá sýn að markmið kjarasamninga um hækkun lægstu launa eða koma í veg fyrir fátækt sé eitthvað sem þessir hópar beri enga ábyrgð á. Það gefi augaleið að ákvarðanir kjararáðs valdi miklum pirringi hjá almenningi.

„Stóru hóparnir, 85.000 manns á vinnumarkaði, lögðu sig fram um að nálgast gerð kjarasamninga kannski af meiri ábyrgð og leggja af stað með eitthvað sem væri hægt að rýma innan okkar efnahagskerfis. Það er ljóst að ekki bara ríki og sveitarfélög hafa mótað aðra og ríkulegri stefnu heldur taka þeir sem fjalla svo um það á grundvelli gerðardóms og kjararáðs það sem viðmiðið,“ segir Gylfi.

Njóta betri launaþróunar en aðrir

Það sé fyrst og fremst afturvirkni launahækkunarinnar sem kjararáð ákvað sem kemur á óvart að mati Gylfa, en hún gildir frá 1. mars. Gylfi bendir á að meginhluti þeirra sem gerðu kjarasamninga á árinu hafi fengið hækkanir frá 1. maí.

„Það þarf þá að rökstyðja það af hverju þetta nær til mars. Það var mjög lítill hópur sem tók breytingar miðað við 1. mars. Langflestir tóku breytingum miðað við 1. maí. Það er engin sérstök viðmiðun í 1. mars,“ segir Gylfi.

Gerðardómur ákvað laun félagsmanna í aðildarfélögum Bandalags háskólamanna miðað við 1. mars. Gylfi segir forvitnilegt að sjá hvað gerist næst þegar kjararáð taki ákvörðun um laun og hvort áfram verði miðað við háskólafólk þá.

„Á næsta ári fær BHM 5,5% launahækkun en hjúkrunarfræðingar og aðrir ríkisstarfsmenn 6,5%. Ef kjaradómur ætlar að miða við háskólamenn þá hlýtur hann að gera það líka á næsta ári. Það er það sem er hættan í þessu. Þeir taka alltaf hæsta viðmið og fara á milli hópa. Það leiðir til þess að þessi hópur nýtur betri launaþróunar en almennt er verið að fjalla um,“ segir Gylfi.

Miði við ákvörðun kjararáðs í viðræðum við SA

ASÍ samdi um 6,2% launahækkun frá 1. maí í sínum kjarasamningum fyrr á þessu ári. Nú standa yfir viðræður á milli fulltrúa þess og Samtaka atvinnulífsins um hvernig eigi að lagfæra kjör Alþýðusambandsfólks. Gylfi segir að ákvörðun kjararáðs hafi áhrif á þær.

„Þetta einfaldlega hlýtur að vera til viðmiðunar þar. Við ætlumst til þess að félagsmenn Alþýðusambandsins sitji við sama borð og það sé verið að nota sömu gleraugun við að leggja mat á kjaraþróun. Það séu ekki einhverjar aðrar aðstæður sem eigi að gilda fyrir félagsmenn ASÍ en gilda almennt í landinu,“ segir hann.

Meðal annars þurfi að skoða hvenær hækkanir taki gildi í ljósi þessarar miklu afturvirkni ákvörðunar kjararáðs. 

Laun forsætisrráðherra hækka meðal annars um rúmar 118 þúsund krónur …
Laun forsætisrráðherra hækka meðal annars um rúmar 118 þúsund krónur með ákvörðun kjararáðs. Mbl.is/ Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert