Saksóknari í Stím-málinu reyndi að fá að vita frá vitni í dag hvort Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum stjórnarmaður í Glitni og fjárfestir, hafi komið að Stím-viðskiptunum sem ákært er fyrir í málinu. Guðný Sigurðardóttir, fyrrum lánastjóri hjá Glitni, bar vitni en hún var lánastjóri Stíms.
Saksóknari byrjaði á að spyrja hana um aðkomu hennar að málinu, hvort hún hafi kynnt það í áhættunefnd og varðandi hver hafi óskað eftir að hún tæki málið að sér. Sagðist hún ekki muna þetta svo vel, enda um 8 ár síðan.
Þá skýrði hún fyrir saksóknara að kerfi bankans fyrir eignarhaldsfélög hafi ekki verið mjög góð á þessum tíma og því hafi stundum verið gerð áhættumöt utan kerfisins, en saksóknari spurði hana um beiðni hennar um „dummy áhættumat“ vegna Stím. Í sama pósti til annars starfsmanns bankans óskar hún eftir að farið sé með málið á hljóðlegan hátt og svaraði hún því til að slíkt ætti að gera þar sem um væri að ræða lánamál til að kaupa skráð hlutabréf, þ.e. í FL group og Glitni.
Saksóknari lét svo spila símtal sem var á milli hennar og Elmars Svavarssonar, verðbréfamiðlara hjá bankanum frá því í nóvember 2007, rétt áður en tæplega 20 milljarða lán var veitt til Stím. Ræða þau þar meðal annars um Stím og ber Jón Ásgeir á góma þar, en hann bar meðal annars vitni í málinu sem stjórnarmaður í FL group. Var hann ekki spurður um póstinn og þegar Elmar hafði mætt fyrir dóminn neitaði hann að tjá sig og var því ekki spurður um símtalið.
Elmar: „Jón ásgeir er á djöflamergnum“
Guðný: „Hvað segiru jón ásgeir er?“
Elmar: „Á djöflamergnum, on the motherfucker“
Seinna í símtalinu kom svo fram að Jón Ásgeir væri að vinna í málinu, en Guðný gat ekki útskýrt það, né hver þýðingin með djöflamerg væri. Vísaði hún til þess að Elmar og Jón Ásgeir hefðu verið í einhverjum samskiptum vegna málsins, en man þó ekki nákvæmlega hvað það var.
Jón Ásgeir er ekki ákærður í Stím-málinu, en hann var aftur á móti ákærður í Aurum málinu, en það félag var meðal aðila sem kom að því að veita Stím lán til að fjárfesta í bréfum FL group og Glitni, sem Jón Ásgeir var tengdur.