„Þeir gerðu einfaldlega það sem þeim ber samkvæmt lögum og verklagsreglum spítalans og létu lögregluna vita. En þeir sáu ekki fyrir að hún myndi bregðast svo harkalega við sem raun bar vitni,“ segir Ásta Kristín Andrésdóttir, hjúkrunarfræðingur sem sakaður er um manndráp af gáleysi eftir að sjúklingur í hennar umsjón lést á gjörgæsludeild Landspítalans síðla árs 2012.
Aðalmeðferð í máli hennar fór nýlega fram í Héraðsdómi Reykjavíkur og er niðurstöðu dómsins nú beðið. Saksóknari fer fram á að Ásta Kristín verði dæmd í fjögurra til sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og greiði að auki sakarkostnað upp á rúma 1,2 milljón króna. Ásta Kristín ræddi við blaðamann Stundarinnar.
Ásta Kristín segir í viðtalinu að hvorki hana né stjórnendur spítalans hafi órað fyrir að málið færi í þennan farveg, að hún yrði ákærð fyrir manndráp að gáleysi, að málið yrði ekki fellt niður.
„Lögreglan aflaði sér að mínu mati ekki læknisfræðilegs sérfræðiálits á atvikinu sjálfu og því sem mér var gefið að sök. Einnig spurði rannsóknarlögreglan ekki spítalann út í rótargreiningu hans á atvikinu. Það kom fram eftir ákæruna. Þessi framganga lögreglunnar gagnvart mér var mér þungbær.
Um tíma var ég farin að skilgreina mig sem glæpahjúkku. Sjálfsmynd mín var í molum,“ segir Ásta Kristín.
„Ég hafði sagt við yfirmenn mína á spítalanum að ef svo færi að ég fengi ákæru þá yrði ég óvinnufær. Og það varð raunin. Þetta varð mér svo mikið áfall að ég gat engan vegin stundað vinnu mína. Ég reyndi allt sem ég gat til þess að börnin mín finndu ekki fyrir þeirri þjáningu sem ég gekk í gegnum. Mér fannst ég verða að vera sterk fyrir börnin mín. En eftir ákæruna varð mér ljóst að ég þyrfti að taka það skref að segja dóttur minni, sem var orðin 11 ára, allt af létta,“ segir Ásta.
Skólasálfræðingurinn fylgdist vel með dóttur hennar í framhaldinu. Hún hefur sýnt merki um kvíðaröskun. „En eftir aðalmeðferð málsins sagði ég henni að það hefði gengið vel og þessir tveir dagar sem ég hafði kviðið svo fyrir væru liðnir. Þá var eins og henni væri dálítið létt,“ segir Ásta Kristín við Stundina.
Í viðtalinu ræðir Ásta Kristín meðal annars um föður sinn sem lést aðeins 42 ára gamall eftir að hafa fengið lungnabólgu. „Þann 15. október 1997 varð ég fyrir því mikla áfalli að missa föður minn. Hann hafði fengið bráðalungnabólgu heima á Þingeyri og var fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Hann hafði reyndar verið veikur í nokkra daga og í tvígang leitað læknis en var sendur heim. Svo kom að því að hann var orðinn fárveikur.“
Hann var fluttur á bráðamóttökuna í Fossvogi og þaðan á gjörgæsludeild þar sem hann lést. „Á einni svipstundu var pabbi minn dáinn í blóma lífsins. Þetta varð mér hræðilegt áfall,“ segir Ásta Kristín í ítarlegu viðtali við Stundina.