Sýknaðir af hópnauðgun

mbl.is

Fimm piltar voru í dag sýknaðir af hópnauðgun í Héraðsdómi Reykjavíkur en einn þeirra var hins vegar dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að mynda atvikið. Honum var einnig gert að greiða stúlkunni 500 þúsund krónur í miskabætur auk vaxta. Piltarnir eru í dag á aldrinum 18-20 ára en atvikið átti sér stað í íbúð í Breiðholti í Reykjavík í maí á síðasta ári. Stúlkan er 18 ára í dag en var 16 ára þegar atvikið varð.

Fram kemur í dómnum að piltanir hafi allir neitað því að hafa nauðgað stúlkunni og að samræmi hafi verið á milli framburðar þeirra í þeim efnum á meðan þeir hafi setið í gæsluvarðhaldi í kjölfar þess að þeir voru handteknir. Þeir hafi að sama skapi allir borið að þeir hafi talið stúlkuna hafa tekið af fúsum og frjálsum vilja þátt í þeim kynferðisathöfnum sem átt hafi sér stað.

Hins vegar segir að framburður stúlkunnar hafi verið breytilegur um sum atriði og ennfremur hafi komið fram í máli hennar að hún myndi sumt illa. Hún virtist fyrst hafa talað um nauðgun eftir að myndbandsupptökuna hafi borið á góma. Er þar meðal annars vísað til vitnisburðar þriggja vitna í málinu um að stúlkan hafi sagt að færi myndbandið í dreifingu myndi hún segja að um nauðgun hafi verið að ræða.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að framburður piltanna væri trúverðugur og að þeir hafi hver og einn greint hreinskilnislega frá málsatvikum. Ekkert hafi komið fram í málinu sem gefi til kynna að þeir hafi haft ástæðu til að ætla annað en að stúlkan væri samþykk því sem fram hafi farið í herberginu. Stúlkan hafi sagt að hún hafi gefið piltunum til kynna að hún vildi ekki vera með þeim en ekki sagt það berum orðum. Síðar hafi hún sagt að hún gæti hafa sagt það berum orðum við piltana en myndi það ekki.

Ennfremur segir í dómnum að gögn um skoðun neyðarmóttöku styðji ekki framburð stúlkunnar um að hennar hafi verið nauðgað gegn eindreginni neitun piltanna. Fyrir vikið sé ósannað að piltarnir hafi gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefið að sök.

Þrír dómarar dæmdu málið og skilaði einn þeirra, Arngrímur Ísberg, séráliti þar sem hann taldi að þyngri refsing ætti að liggja við því broti að taka atvikið upp og hærri bætur enda væri um að ræða „mjög alvarlegt brot“ og „mikla meingerð af hálfu ákærða gagnvart brotaþola.“

Ríkissaksóknari ákærði mennina í sumar en stúlkan lagði fram kæru á hendur piltunum þann 7. maí á síðasta ári. Pilt­arn­ir voru hand­tekn­ir sam­dæg­urs. Rann­sókn máls­ins var um­fangs­mik­il, m.a. var lögð fram mynd­bands­upp­taka sem tek­in var á síma eins pilt­anna. Þá voru tekn­ar skýrsl­ur af fjölda fólks.

Pilt­arn­ir gengust allir við því að hafa haft sam­far­ir við stúlk­una, en sögðust hafa talið að hún væri því samþykk sem fyrr segir. Stúlkan fór fram á skaða- og miskabætur að upphæð rúmlega 10 milljónir króna auk vaxta og málskostnaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka