„Voru að svala fýsnum sínum“

mbl.is

Móðir stúlkunnar sem sakaði fimm menn um að hafa nauðgað sér í Breiðholti í maí 2014 hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún segir m.a. að engar fallegar tilfinningar hafi verið að verki, „einungis grímulaus greddan og eigingjarnt tillitsleysi gagnvart bjargarlausri manneskju“.

Mennirnir fimm voru sýknaðir af hópnauðgun í héraðsdómi Reykjavíkur í dag en einn þeirra var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að mynda atvikið.

Frétt mbl.is: Sýknaðir af hópnauðgun

„Ef það er einhver hér á landi sem efast um að glæpur hafi verið framinn þá þarf það að koma fram að engin unglingsstúlka undir áhrifum áfengis hefur samræði við 5 ókunnuga menn í einu af fúsum og frjálsum vilja. Það er ekki kynlíf, það er ofbeldi. Það ætti öllum sem ganga heilir til skógar að vera fullljóst,“ segir móðirin, Lilja Björnsdóttir, í yfirlýsingunni sem birtist á Vísir.is.

Frétt mbl.is: Ekki ákveðið með áfrýjun

Yfirlýsingin í heild:

Allir vita að kynlíf er eitt en nauðgun annað og á þetta tvennt ekkert sameiginlegt. Mig, móður brotaþola, langar að upplýsa alla um nokkrar staðreyndir vegna hópnauðgunar sem átti sér stað í Asparfelli í maí 2014. Gerendur voru fimm en brotaþoli einn. Þeir voru í dag sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur og eðlilegt er að spyrja sig hvort þar hafi skipt máli að allir verjendur og tveir af þremur dómurum eru karlkyns.

Að taka þátt í hópkynlífi er öllum frjálst ef allir eru því samþykkir og stofnað er til þess með vitund, vilja og samþykki allra er taka ætla þátt. Að ætla að einstaklingur  sem er til staðar fyrir tilviljun sé tiltækur til að taka þátt í þannig leik án þess að vera í samráði við hann í upphafi eða skipuleggja þannig leik án vitundar  þess einstaklings er fjarri því að vera í lagi og telst ekki vera kynlíf heldur nauðgun.
Það hefur verið gríðarlega erfitt fyrir dóttur mína að fást við þetta brot og auðveldast hefði verið fyrir hana, til skamms tíma, að sleppa því að leggja fram kæru eins og hún ætlaði sér fyrstu dagana á eftir brotið.  Að ákveða að kæra svona brot er erfitt og dregur dilk á eftir sér. Öll fjölskylda brotaþola  sem og vinir hennar og kunningjar verða fyrir gríðarlegu  áfalli við þessar fréttir og til að mynda fékk amma hennar taugaáfall og endaði á bráðamóttöku í kjölfarið af því að við foreldrarnir  þurftum að segja henni og afa hennar þessar hræðilegu fréttir. 

Að  kæra nauðgun er ekki einfalt og við taka mjög erfiðar  og nærgöngular skýrslutökur  ásamt því að þurfa að horfa á myndband af verknaðinum í viðurvist lögreglu og réttargæslumanns og í tilviki dóttir minnar starfsmanns barnaverndar þar sem hún var einungis 16 ára þegar á henni var brotið. Að þurfa að horfa á sjálfa sig í þannig niðurlægjandi aðstæðum þar sem fimm drengir eru hlæjandi og flissandi að skemmta sér við að nauðga manni er gríðarlega erfitt og þarf sterka og heiðarlega persónu til að treysta sér til þess.  Að leggja af stað í þá vegferð gerir maður ekki nema að hafa sannleikann með í för.

Staðreyndin er sú að þessir drengir voru að svala fýsnum sínum á henni og skeyttu engu um hana. Enginn spurði hana hvað hún vildi eða hvernig henni leið. Engar fallegar tilfinningar voru að verki einungis grímulaus greddan og eigingjarnt tillitsleysi gagnvart bjargarlausri manneskju. Skeytingarleysið var algjört og enginn var maður til að koma henni til hjálpar og stöðva verknaðinn.

Ef það er einhver hér á landi sem efast um að glæpur hafi verið framinn þá þarf það að koma fram að engin unglingsstúlka undir áhrifum áfengis hefur samræði við 5 ókunnuga menn í einu af fúsum og frjálsum vilja. Það er ekki kynlíf, það er ofbeldi. Það ætti öllum sem ganga heilir til skógar að vera fullljóst. Þetta er ofbeldi af verstu sort og tími til kominn að koma því til skila til allra hér á landi að ungar stelpur eru ekki dót sem hægt er að gera hvað sem er við, bara af því þær þora ekki að neita eða berjast á móti. Þessu verður að fara að linna. Ef þú ert númer fimm í röðinni getur þú bókað að um nauðgun er að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert